MERKIR ÍSLENDINGAR – AÐALHEIÐUR HÓLM

Aðal­heiður Pálína Sig­ur­g­arðsdótt­ir Hólm Spans, oft­ast kölluð Heiða Hólm, fædd­ist á Ey­steins­eyri við Tálkna­fjörð þann 20. sept­em­ber árið 1915.

For­eldr­ar henn­ar voru hjón­in Vikt­oría Bjarna­dótt­ir frá Tálknafirði, f. 25.2. 1888, d. 7.10. 1963, hús­freyja á Ey­steins­eyri og Bíldu­dal, síðar for­stöðukona og kaup­kona í Reykja­vík, og Sig­ur­g­arður Sturlu­son frá Vatns­dal, f. 14.5. 1867, d. 26.3. 1932, bóndi og kenn­ari á Ey­steins­eyri, síðar smiður á Bíldu­dal.

Aðal­heiður gift­ist árið 1944 Wug­bold Spans loft­skeyta­manni og seinna upp­lýs­inga­full­trúa við Há­skóla­sjúkra­húsið í Utrecht í Hollandi. Þau eignuðust þrjú börn; Vikt­oríu Spans óperu­söng­konu, Sturlu og Pieter.

Aðal­heiður ólst fyrstu árin upp á Tálknafirði en flutti til Reykja­vík­ur á unglings­ár­um. Átján ára göm­ul stofnaði hún ásamt öðrum kon­um Starfs­stúlkna­fé­lagið Sókn. Hún var fyrsti formaður fé­lags­ins. Meðal fyrstu embættis­verka henn­ar var að leiða Sókn í kjara­samn­ing­um starfs­stúlkna við rík­is­spít­al­ana, þeim fyrstu sinn­ar teg­und­ar, og voru þeir und­ir­ritaðir 2.11. 1935. Í þeim var m.a. af­mörkuð lengd vinnu­dags stúlkn­anna, samið um greiðslur fyr­ir yf­ir­vinnu og kveðið á um veik­inda­rétt­indi – sem var ný­lunda á þess­um tíma.

Árið 1946 flutti Aðal­heiður til Hol­lands með manni sín­um og Vikt­oríu dótt­ur þeirra, sem þá var fjög­urra ára. Heim­ili þeirra í Utrecht var alla tíð opið þeim Íslend­ing­um sem leið áttu um Hol­land vegna náms eða starfa og var þeim gjarn­an lagt lið við hvaðeina.

 Aðal­heiður var einn stofn­enda Vina­fé­lags Íslands og Hol­lands. Þor­vald­ur Krist­ins­son ritaði end­ur­minn­ing­ar henn­ar í bók­inni Veistu ef vin þú átt, og kom hún út árið 1994. Aðal­heiði var veitt hin ís­lenska fálka­orða fyr­ir störf sín í þágu ís­lenskra verka­kvenna fyr­ir og eft­ir seinni heims­styrj­öld og aðstoð við Íslend­inga í Hollandi.

Aðal­heiður lést í Utrecht 27. ág­úst 2005.

Skráð af Menningar Bakki.

DEILA