Aðalheiður Pálína Sigurgarðsdóttir Hólm Spans, oftast kölluð Heiða Hólm, fæddist á Eysteinseyri við Tálknafjörð þann 20. september árið 1915.
Foreldrar hennar voru hjónin Viktoría Bjarnadóttir frá Tálknafirði, f. 25.2. 1888, d. 7.10. 1963, húsfreyja á Eysteinseyri og Bíldudal, síðar forstöðukona og kaupkona í Reykjavík, og Sigurgarður Sturluson frá Vatnsdal, f. 14.5. 1867, d. 26.3. 1932, bóndi og kennari á Eysteinseyri, síðar smiður á Bíldudal.
Aðalheiður giftist árið 1944 Wugbold Spans loftskeytamanni og seinna upplýsingafulltrúa við Háskólasjúkrahúsið í Utrecht í Hollandi. Þau eignuðust þrjú börn; Viktoríu Spans óperusöngkonu, Sturlu og Pieter.
Aðalheiður ólst fyrstu árin upp á Tálknafirði en flutti til Reykjavíkur á unglingsárum. Átján ára gömul stofnaði hún ásamt öðrum konum Starfsstúlknafélagið Sókn. Hún var fyrsti formaður félagsins. Meðal fyrstu embættisverka hennar var að leiða Sókn í kjarasamningum starfsstúlkna við ríkisspítalana, þeim fyrstu sinnar tegundar, og voru þeir undirritaðir 2.11. 1935. Í þeim var m.a. afmörkuð lengd vinnudags stúlknanna, samið um greiðslur fyrir yfirvinnu og kveðið á um veikindaréttindi – sem var nýlunda á þessum tíma.
Árið 1946 flutti Aðalheiður til Hollands með manni sínum og Viktoríu dóttur þeirra, sem þá var fjögurra ára. Heimili þeirra í Utrecht var alla tíð opið þeim Íslendingum sem leið áttu um Holland vegna náms eða starfa og var þeim gjarnan lagt lið við hvaðeina.
Aðalheiður var einn stofnenda Vinafélags Íslands og Hollands. Þorvaldur Kristinsson ritaði endurminningar hennar í bókinni Veistu ef vin þú átt, og kom hún út árið 1994. Aðalheiði var veitt hin íslenska fálkaorða fyrir störf sín í þágu íslenskra verkakvenna fyrir og eftir seinni heimsstyrjöld og aðstoð við Íslendinga í Hollandi.
Aðalheiður lést í Utrecht 27. ágúst 2005.
Skráð af Menningar Bakki.