Nokkuð hefur verið fjallað um laxa sem veiðst hafa í Mjólká í Arnarfirði þar sem hluti þeirra virðast vera eldislaxar. Þekkt er að villtir laxar og eldislaxar geta blandast. Opinber stefna er að koma í veg fyrir blöndun og því er laxeldi í sjó bannað á stórum hluta strandlengju landsins þar sem eru helstu laxveiðiár landsins. Sjókvíaeldið er leyft á Vestfjörðum þar sem laxastofnar þar eru fáir og smáir.
Í Arnarfirði er umtalsvert sjókvíaeldi einmitt vegna þess að þar er lítið um villta laxastofna. Mjólká er stutt á og í henni er enginn laxastofn. Athuga ber að villtir laxar rata ekki alltaf til síns uppruna og eiga það til að villast í aðrar ár. Svo háttar til um ákveðið hlutfall af villtum laxi. Því finnast villtir laxar stundum í ám þótt einginn stofn sé í ánni. Það er merkilegt að 16 villtir laxar hafi veiðst í Mjólká, miklu merkilegra en að líklega hafi 16 eldislaxar veiðast þar. Það er við því að búast að eldisfiskar sleppi þar sem eldi er stundað og leiti þá upp í nærliggjandi ár. En það er óvenjulegt að svo margir villtir fiskar finnist í stuttri á með engan stofn. Og þótt það gerist er engin hætta á ferðum.
Hreistursýni – 0 eldislaxar
Fylgst er með sjókvíum og tilkynnt um öll óhöpp. Staðreyndin er sú að þau hafa verið fá og örfáir laxar fundist sem sloppið hafa úr kvíum. Í fyrra fékk Hafrannsóknarstofnun 6 laxa til upprunagreiningar. þrír þeirra reyndust vera eldislaxar, tveir þeirra úr Arnarfirði, þar sem þeir veiddust. Árið 2020 reyndust einnig þrír vera strokulaxar úr eldi á landinu öllu. Þetta eru lágar tölur og ekki til þess að hafa áhyggjur af.
Hafrannsóknarstofnun gerir meira en þetta. Árlega eru tekin hreistursýni úr fjölmörgum ám og þau greind. Greina má uppruna laxa úr sjókvíaeldi með skoðun hreinstursýnanna. Í fyrra voru 1043 sýni tekin úr 18 ám.
„Ekki er vitað til þess að lax með hreisturmynstur sem benti til uppruna úr sjókvíaeldi hafi komið fram í sýnunum frá 2021“ segir orðrétt úr skýrslu stofnunarinnar. Í hitteðfyrra voru tekin 1207 hreistursýni úr 19 ám. Sama niðurstaða, engin eldislax.
Árvakar – 0 eldislaxar
Þessu til viðbótar má svo nefna að Hafrannsóknarstofnun hefur komið upp teljurum í 20 ám, þar af eru myndavélar í 12 ám. Meðal þeirra eru bæði Laugardalsá og Langadalsá í Ísafjarðardjúpi. Teljararnir eða árvakarnir eru töluverð mannvirki sem eru þannig að allir laxar sem fara upp í viðkomandi á verða að fara þar um og sama þegar þeir fara niður aftur. Það er hægt að mynda hvern lax í þessum ám og tegundagreina og stærðarmæla einstaka fiska sem ganga í ána. Einnig er hægt að greina ytri eldiseinkenni, s.s. eydda ugga, ef laxar sem sloppið hafa úr sjókvíaeldi ganga um teljarann.
Það má segja með nokkurri vissu að ef eldislax gengi upp í þessar ár þá er það vitað og jafnvel hægt að stöðva för hans. Í Laugardalsá hafa að meðaltali gengið 233 laxar á árunum 2018-2021 og í Langadalsá eru þeir 78 á árunum 2019-2021.
Niðurstaðan af vöktuninni með árvakanum í Djúpinu er 0 – núll. Enginn eldislax hefur sést þar, þrátt fyrir allt laxeldið á Vestfjörðum.
Staðreyndin er sú að eldisfyrirtækin hafa staðið sig mun betur en mat Hafrannsóknarstofnunar um slysasleppingar gerir ráð fyrir. Hættan á erfðablöndun er því minni en mat þeirra gerir ráð fyrir.
-k