Opnunarmynd Pigeon International Film Festival (PIFF), sem haldin verður í annað sinn á Ísafirði í haust, var tilnefnd sem besta erlenda myndin á Óskarsverðlaununum í ár. Það er bútanska myndin Lunana: a Yak in The Classroom. Það vakti heimsathygli þegar hún var tilnefnd til verðlaunanna eftirsóttu þar sem hún er fyrsta myndin frá Bútan til að öðlast þann heiður. Leikstjóri hennar er Pawo Choyning Dorji og er hann væntanlegur sem gestur á Piff-hátíðina í október og mun sitja fyrir svörum að sýningu lokinni.
Myndin fjallar um kennara sem fær það erfiða starf að kenna krökkum í Lunana, litlum bæ hátt í fjöllunum í Bútan í Suður-Asíu. Hún var tekin í litlu þorpi hátt í Himalaya-fjöllum án rafmagns eða annarra nútímaþæginda.
Í grein New York Times frá því í febrúar er haft eftir hinum heimsfræga leikstjóra Ang Lee að myndin sé sem ferskur andblær. Vitnað er þar í hann að þetta sé dýrmæt, mjög einföld en afar hjartnæm mynd.
Myndin var framlag bútönsku ríkistjórnarinnar til Óskarsverðlaunanna árið 2021 en var dæmd úr leik vegna þess að svo langt var síðan að tillaga hafði komið frá Bútan að landið var ekki lengur á lista yfir þau lönd sem eru opinberlega viðurkennd af akademíunni.
Sérstök valnefnd var því mynduð fyrir Óskarsverðlaunin 2022 og var myndin aftur send inn sem framlag þjóðarinnar. Var hún í þetta sinn valin úr 93 framlögum víðs vegar úr heiminum sem tilnefnd var til Óskarsverðlauna í flokki alþjóðlegra kvikmynda í fullri lengd, ásamt fjórum öðrum myndum frá Japan, Danmörku, Ítalíu og Noregi. Það var svo japanska kvikmyndin Drive My Car sem hlaut verðlaunin en hún var einnig tilnefnd sem besta kvikmyndin í fullri lengd sem eru æðstu verðlaunin sem hægt er að fá á Óskarnum.
Lunana: Yak in the Classroom verður sýnd í Ísafjarðarbíó kl. 18 fimmtudaginn 13. október að lokinni opnunarhátíð Piff. Hátíðin verður dagana 13-16. október nk.