Innviðaráðuneytið hefur kynnt í samráðsgátt stjórnvalda áform um að færa verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga til ríkisins þar sem þau yrðu sameinuð öðrum innheimtukerfum ríkissjóðs. Einkum er það innheimta meðlaga sem stofnunin hefur annast.
Sveitarfélögin hafa viljað losna við þetta verkefni og í samkomulagi milli sambands íslenskra sveitarfélaga og ríkisins frá 2020 um afkomu og efnahag er meðal annars mælt fyrir um mögulega yfirfærslu Innheimtustofnunar sveitarfélaga til Tryggingastofnunar ríkisins og var vinna við það í nóvember það ár sögð langt komin.
Í samráðsgáttinni nú segir að skýr vilji er hjá sveitarfélögum í gegnum Samband íslenskra sveitarfélaga að verkefni Innheimtustofnunar verði færð til ríkisins, ekki síst vegna áhrifa reksturs stofnunarinnar á fjárhagsstöðu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Innheimtustofnunin er með starfsstöð á Ísafirði þar sem 8 – 9 starfsmenn hafa unnið. Bæjarráð Ísafjarðarbæjar tók málið fyrir á fundi sínum í vikunni og bókað var að það gerir ekki athugasemdir við áform um lagabreytingu, en áréttar bókun bæjarstjórnar frá 6. janúar 2022, um „að staðið verði vörð um störf tengd innheimtu meðlaga í Ísafjarðarbæ, auk þess sem mikil sóknarfæri geta skapast til fjölgunar starfa og fleiri verkefna með því að samþætti starfsemina við aðra starfsemi opinberra stofnanna á vegum ríkisins.“
Forstöðumanni Innheimtustofnunarinnar á Ísafirði var fyrr á árinu vikið frá störfum svo og forstjóra stofnunarinnar og stendur rannsókn yfir á störfum þeirra. Veruleg truflun hefur verið á starfseminni á Ísafirði vegna fjarveru og veikinda starfsmanna. Í maí var ráðinn nýr forstöðumaður fyrir starfsstöðina á Ísafirði.
Í kynningu málsins í samráðsgátt stjórnvalda er ekki getið um hvert verkefnin yrðu flutt hjá ríkinu og hver yrðu afdrif útibúsins á Ísafirði eftir flutninginn til ríkisins.