VALSE TRISTE sýning á verkum Guðmundar Thoroddsen opnuð á Ísafirði

Guðmundur Thoroddsen:

VALSE TRISTE
1.8 – 17.9 2022

Mándaginn 1. ágúst var opnuð sýning á verkum Guðmundar Thoroddsen (1952-1996) í Úthverfu á Ísafirði. Guðmundur Thoroddsen, sem lést aðeins 43 ára að aldri, var Reykvíkingur en hafði mikil og náin tengsl við Reykhólasveit og Ísafjörð. Hann dvaldi öll sumur á Stað í Reykhólasveit sem barn og unglingur og giftist til Ísafjarðar 1986 og bjó þar til dauðadags. Guðmundur tók þátt í að reka Gallerí Slunkaríki á Ísafirði og vann að frumkvöðlaverkefni í skútusiglingum með ferðamenn um Vestfirði. Hann lærði myndlist í Myndlistarskólanum í Reykjavík og Rijksakademie van beeldende kunsten í Amsterdam, var mikill ævintýramaður og ferðaðist víða um heim bæði á sjó og landi. Myndlistin sem hann skilur eftir sig ber með sér áhuga hans á siglingum og mörg viðfangsefnin tengjast landsvæðum sem hann ýmist ferðaðist til eða hugðist fara til. Þjóðsögur og ævintýri voru honum hugleikin og sjá má endurtekin tákn og minni þaðan í verkum hans frá ýmsum tímum. Á sýningunni er leitast við að gefa mynd af ferli hans sem myndlistarmanns auk þess að segja frá öðrum viðfangsefnum og áhugamálum sem höfðu áhrif á myndlistina. Eftir hann liggur talsvert af grafíkmyndum, vatnslitamyndum, málverkum, teikningum, bókverk og lágmyndir sem unnar eru með blandaðri tækni.

Sýningin fer fram í Gallerí Úthverfu, Aðalstræti 22 á Ísafirði og á fleiri stöðum í húsinu s.s. í gömlu vinnustofunni hans á 3. hæð hússins. Sýningunni lýkur 17. september 2022, en þann dag hefði hann orðið sjötugur. Í tengslum við lokadag sýningarinnar verður skipulögð dagskrá með fróðleik um feril listamannsins og tónlistarflutningi, en Guðmundur var m.a. í hljómsveitinni Diabolus in Musica sem gaf út tvær hljómplötur á sínum tíma. Þetta er í fyrsta sinn sem haldin er yfirlitssýning á verkum Guðmundar Thoroddsen  og í fyrsta sinn sem gerð er tilraun til að flétta saman við lífshlaup og áhugamál listamannsins með þessum hætti.

Frá opnun sýningarinnar.
Frá sýningaropnuninni.
Guðmundur Thoroddsen.

DEILA