Ferðafélag Ísfirðinga:Álfsstaðir í Hrafn(s)firði -Flæðareyri í Leirufirði – 2 skór

6. ágúst, laugardagur
Fararstjórn: Emil Ingi Emilsson.
Brottför: Kl. 8. Frá Sundahöfn
Siglt frá Ísafirði inn í Hrafn(s)fjörð að Álfsstöðum. Þaðan verður gengið út fjörðinn fram hjá bænum Hrafnsfjarðareyri og yfir Kjósarháls þar sem samnefndur bær stóð.
Vaðið yfir Leirufjörð, gengið fram hjá Dynjanda og ferðinni lýkur á Flæðareyri.
Vegalengd 17-18 km, göngutími 8 klst., upphækkun 50 m.

Sviplegt að horfa á leikendurna hverfa út á milli lausaveggjanna miðjum þætti fyrir lyftu fortjaldi og hafa á brott með sér innanstokksmunina úr sjónleiknum, uns eftir stendur sviðið autt. En tjaldið fellur ekki. Sem hljóðir skuggar líða horfin örlög yfir tómt sviðið, þeir leikir sem hér voru leiknir forðum – í þúsund ár samfleytt; því þetta er gamalt leikhús….Sjónleikur þúsund ára mannlífs er allur, og bráðum enginn eftir á staðnum til að muna neitt sem hefur gerst; þraut og gnótt, gleði og harmur þrjátíu fjörtíu kynslóða öld fram af öld síðan árið 900 eða 950 eða þaríkring, vonir, ástir, jól, lífsháskar, móðir og barn þúsund sinnum, tíu þúsund sinnum og kannski oftar, og jafnoft svolítil líkfylgd ýmist á glöðum sumardegi eða í hríðargaungum um vetur, en nú – alt búið;

Þannig skrifaði Halldór Laxness um hina horfnu byggð á Hornströndum og í Jökulfjörðum í grein undir heitinu Sviðið autt sem birtist í Tímarit máls og menningar árið 1951. Það er um þessar horfnu byggðir sem Ferðafélag Ísfirðinga hyggst fara í gönguferð laugardaginn 6. ágúst. Og þó að það sé að vísu rétt hjá skáldinu að fólkið hafi yfirgefið sviðið og náttúruskyn fólks sem heimili átti á svæðinu sé týnt er það margt sem geymst hefur um mannlíf og sögu byggðarinnar. Það verður m.a. rifjað upp í gönguferðinni.  Gengið verður frá Álfsstöðum í Hrafnsfirði og yfir að Flæðareyri með sögustundum og áningum á bæjunum á leiðinni sem þar voru í byggð.

Um landnám í Jökulfjörðum segir svo í Landnámu:

Þórólfur fasthaldi hét maður ágætur í Sogni; hann varð ósáttur við Hákon jarl Grjótgarðsson og fór til Íslands með ráði Haralds konungs. Hann nam land frá Sandeyrará til Gýgjarsporsár í Hrafnsfirði; hann bjó að Snæfjöllum…

Örlygur son Böðvars Vígsterkssonar fór til Íslands fyrir ofríki Haralds konungs hárfagra; hann var hinn fyrsta vetur með Geirmundi heljarskinn, en um vorið gaf Geirmundur honum bú í Aðalvík og lönd þau, sem þar lágu til. Örlygur átti Signýju dóttur Óblauðs, systur Högna hins hvíta; þeirra son var Ketill gufa, er átti Ýri Geirmundardóttur.

…Örlygur eignaðist Sléttu og Jökulsfjörðu.

Austur úr Ísafjarðardjúpi utanverðu gengur breiður flói eða fjörður sem fimm firðir kvíslast frá til norðurs, austurs og suðurs. Heita þeir einu nafni Jökulfirðir. Þeir voru friðlýstir árið 1975. Jökulfirðir bera nafn með réttu því að tveir þeirra ganga upp undir Drangajökul. Fjöll að þeim eru allhá og brött en undirlendi lítið.

Hrafnsfjörður er innstur Jökulfjarða. Hann er þeirra næststærstur og liggur til austurs. Rétt innan við mynni hans skerst inn í hann til suðurs allmikil vík, Kjós. Í fjarðarmynni er fjörðurinn breiðastur um 2,3 km en mjókkar þegar innar dregur. Innarlega í firðinum er Skipeyri. Lengd fjarðarins er 9,2 km. Í fjarðarhlíðum vaxa m.a. kjarnmikil grös og blóm, maríustakkur, brönugrös, blágresi, burknastóð í bollum; hvönn og blálilja í fjöru.

Leirufjörður er austastur fjarðanna fimm í Jökulfjörðum, sem ganga norður úr Ísafjarðardjúpi. Drangajökull skríður niður í fjarðarbotninn og er mikill framburður frá jöklinum út fjörðinn. Fyrir vikið er fjörðurinn grunnur og mórauður og minnir mjög á Kaldalónið.

Álfstaðir

Nokkru utan við botn Hrafnfjarðar að norðan eru Álfsstaðir og skiptir Skorará löndum milli Hrafnfjarðareyrar og Álfstaða en Álfstaðaland nær að sögn að Durnistaðaá í Hrafnfirði norðanverðum. Ábúð á Álfstöðum var nokkuð slitrótt en árið 1889 hóf Guðmundur Þorvaldsson búskap á jörðinni ásamt eiginkonu sinni Svanborgu Rósenkarsdóttur. Hann var sá sem hlóð þessa vel hlöðnu grjótgarða og veggi sem finna má í tóftum bæjarins. Þau hjónin flytja síðar í Kjaransvík.

Árið 1902 búa þar Bæring Guðmundsson og Ólafur Torfason ásamt eiginkonum sínum, Bjargeyju Sigurðardóttur og Friðriku Jónsdóttur. Sambýlismennirnir á Álfstöðum urðu úti á útmánuðum 1903 á heimleið frá Furufirði vestur yfir Skorarheiði. Eftir sviplegan dauða þeirra hefur ekki verið búið á Álfstöðum. Þetta var þá í annað sinn sem Friðrika missti eiginmann sinn en hún giftist síðar Betúel Jóni Friðrikssyni. Þau bjuggu um tíma í verbúðinni á Staðareyrum þar sem erfitt reyndist að fá jarðnæði á þeim árum sem þau voru að hefja búskap. Þar fæddist Betúel Ólafur, fyrra barn þeirra. Ekki er kunnugt um að önnur barnsfæðing hafi átt sér stað þar. Þau hófu síðar búskap að Berjadalsá á Snæfjallaströnd.

Hrafnfjarðareyri

Um miðja vegu milli botns og fjarðarmynnis í Hrafnfirði sunnanverðum var bærinn Hrafnfjarðareyri á  hól þar sem dálítið láglendi gengur útí sjó undan hvilft sem skerst inn í hlíðina og heitir Bæjardalur. Í Fóstbræðra sögu segir frá Ingólfi sem kallaður var Ingólfur sviðinn og bjó á Sviðinsstöðum í Jökulsfjörðum. Þorbrandur hét sonur hans, þeir voru ójafnaðarmenn miklir, tóku annarra manna fé með kúgan og ránum. Sagan segir að fjörður hafi verið á milli byggða Ingólfs og Sigurfljóðar, ekkju er bjó að ætla má að Hrafnfjarðareyri. Í sögunni (sem og í Gerplu Halldórs Laxness), hrekjast þeir fóstbræður Þorgeir Hávarsson og Þormóður Kolbrúnarskáld að bæ Sigurfljóðar á Hrafnfjarðareyri og hafa þar illviðrisdvöl. Hún eggjaði þá til að vega feðgana á Sviðinsstöðum. Launuðu þeir svo húsfreyju gistinguna með því að hlýða húsfreyju til þessa þarfaverks.

Í túninu á Hrafnfjarðareyri er Fljóðuhóll, hár og mikill hóll rétt við sjó handanvið bæjarlækinn og reyndist bændum óráð að hrófla við honum. Sigurfljóð á þar að eiga sinn síðasta hvílustað.

Hrafnfjarðareyri á reyndar sess í sögunni meiri en margir aðrir staðir á þessum slóðum. Um miðja 18. öld bjuggu á Hrafnfjarðareyri þau Halla Jónsdóttir og Eyvindur Jónsson, sem oftast er kallaður Fjalla- Eyvindur. Hann er líka sagður vera grafinn þar í túni. Er leiðið upphlaðið og merkt með krossi og áklappaðri hellu.

Á Hrafnfjarðareyri bjuggu síðust hjónin Líkafrón Sigurgarðsson og Bjarney Sólveig Guðmundsdóttir. Þau komu ásamt annarri fjölskyldu að byggja þar land um Jónsmessu árið 1920. Það voru þau Guðmundur Jónsson og Vagnborg Einarsdóttir. Köld var aðkoma að bænum þetta vor þegar fólkið kom að byggja þar land og yngsta barn þeirra Vagnborgar og Guðmundar (Hulda Salóme Guðmundsdóttir) sem þá var ekki nema sex vikna var lagt í sæng á túnhól á meðan að snjó var mokað út úr bæjarhúsum.

Bjarney var skýr fróðleikskona, trúuð, sögumaður góður og ráðholl. Hún las allt sem hún gat nálgast; prjónaði , spann og las samtímis, og mundi allt sem hún las, rakti fróðleik frá landnámsöld í stíl við Hjálmar Jónsson frænda hennar sem einnig bjó á Hrafnfjarðareyri 1909 – 1919. Þeim sem kynntust Bjarneyju er minnisstæð einstök frásagnargáfa hennar.

https://ismus.is/einstaklingar/1000700?sida=1

Með þrotlausu striti búnaðist þeim Bjarneyju og Líkafrón vel á Hrafnfjarðareyri og komu upp stórum barnahópi. Gestanauð var mikil á bænum þeirra enda bærinn í þjóðbraut og veittu þau hjón ferðamönnum greiða af litlum efnum sínum endurgjaldslaust. Jörðin lagðist í eyði árið 1943 þegar þau hjónin fluttu til Ísafjarðar ásamt börnum sínum. Það voru margir sem söknuðu góðra granna eins og kemur fram í eftirfarandi vísu sem Jón nokkur Maríasson orti:

Nú er Fróni farinn hér

af fyrsta bæ við heiði.

Hörmung er að hugsa sér

Hrafnfjörður i eyði.

Kjós

Kjós, næsti bær við Hrafnfjarðareyri, hefur líklegast verið fyrst byggð í landi kirkjunnar að Stað í Grunnavík sem hefur átt Kjós svo langt sem heimildir ná. Árið 1926 keyptu hjónin Ragnheiður Ingibjörg Jónsdóttir og Tómas Guðmundsson Kjós og fluttu þangað vorið 1927 frá Höfðaströnd. Einnig keyptu þau ¾ hluta í næstu jörð, Leiru. Þau létu byggja upp öll hús á jörðinni þ.á.m. íbúðarhús sem var tvær hæðir með steyptum kjallara undir öllu húsinu.

Á heimilinu voru ævinlega börn og unglingar yfir sumarið annars staðar að. Hjónin áttu ekki börn saman, en af fyrra hjónabandi átti Ragnheiður Einar og Jónínu Þóru. Ragnheiður var þekkt fyrir höfðingsskap sinn, gestrisni og hversu natin hún var við menn og skepnur, forspá og draumspök kona. Til Ragnheiðar kom margt fólk sem þurfti á athvarfi og stuðningi að halda.  Ragnheiður veitti því það og hjálpaði. Tómas var hreppstjóri Grunnavíkurhrepps í tvo áratugi og Ragnheiður var ljósmóðir hreppsins ásamt Kristínu Benediktsdóttur á Dynjanda. Ragnheiður og Tómas fluttu frá Kjós 1952 og lagðist Kjós þá í eyði.

Leira

Jörðin Leira er fyrir botni Leirufjarðar. Inn frá firðinum eru sléttar eyrar, sem myndast hafa af framburði jökulárinnar, sem kemur undan Drangajökli.

Bærinn stóð í brekku í norðanverðum Leirufirði undir hlíðum Leirufjalls en svo heitir fjalllendið milli Leirufjarðar og Hrafnfjarðar.

Það hafa nokkrir skrifað um eða ort um Leirufjörð og haft á honum mismunandi skoðanir. Þar er oft vísað í nokkuð þekkta vísu um ljótleika hans og Ólafur Olavíus sagðí m.a. um hann:

„Ekkert skemmtilegt er að segja um Leirufjörð. Þetta er lítill afkimi, 1 míla á lengd og ¾ mílu á breidd, og liggur til SA. Í fyrsta lagi er hann þakinn snjó nærri allt árið, í öðru lagi gengur andstyggilegur jökull ofan í hann, og falla undan honum vatnsmiklar, mjólkurlitar ár.“

Það hafa reyndar ekki allir verið á þessari skoðun eins og þessi vísa sýnir glöggt fram á:

Listafagri Leirufjörður
líst mér bara vel á þig.
Þú er best af guði gjörður
gimsteinn fyrir þig og mig.

Náttúrufræðingurinn Þorvaldur Thoroddsen klappaði krossmark í bergklöpp þar inni í norðanverðum firðinum 90 skref frá jökulröndinni er hann var þar á ferð árið 1887. Má af þessu marki vel greina hversu mjög jökullinn hefur hopað síðan.  Þessi fjarlægð er í dag orðin töluvert lengri.

Dagbjartur Majasson, sonur Majasar Jónssonar og Guðrúnar E. Guðmundsdóttur, skrifaði á áttunda áratug síðustu aldar minningar um bernskuheimili sitt Leiru í Jökulfjörðum. Majas ,faðir hans, lést úr berklum árið árið 1919 en ekkjan, móðir hans, bjó á jörðinni til ársins 1926 en Leira lagðist þá í eyði. Móðurforeldrar Dagbjartar, Guðmundur Tómasson og Ragnhildur Ólafsdóttir, bjuggu reyndar einnig á jörðinni þar til hún var ekki lengur í byggð.

Það kom fyrir að móðir Dagbjartar gerði eða samdi vísur. Þessi er um yngsta soninn, sem var fárra vikna gamall, þegar faðir hans dó:

Þú varst gefinn mögur mér

að mýkja sorg og trega.

Guð eilífur gefi þér

gleði æfinlega.

Bjarný Rannveig G. Guðmundsdóttir, móðursystir Majasar, orti þessa góðu vísu:

Aftanskinið indæla

oft mitt gladdi sinnið.

Fjallakyrrðin friðsæla

fer mér ei úr minni.

Og ekki er síðri þessi fjallvísa sem hún orti þegar hún heyrði tófugagg að vorlagi:

Roðar sólin rendur fjalla

Ríkir njóla bráðum hér.

Einhver gólar uppá hjalla,

allt í skjólið flýtir sér.

Við sonardóttur sína og nöfnu mælti hún þessi orð:

Mitt er yndið mest í því

að mega binda um sárin.

Og í skyndi enn á ný

öll þín hindra tárin.

Yfir Leirufjörð er um tvær leiðir að velja. Önnur er sú, að vaða jökulána, sem af heimamönnum var oftast nefnd Fjörðurinn, lengra inni á eyrunum þar sem ekki gætir flóða. Hin leiðin er að fara á fjöru um leirurnar í botni fjarðarins.

Dynjandi

Á leiðinni förum við um hlaðið á Dynjanda, fornfrægum bæ, þar sem bjuggu þekktir bændur og sveitarhöfðingjar stórbýli allt til þess er byggðin lagðist af 1952. Þeir, sem munu hvað þekktastir vera, eru feðgarnir Ebenezer Jónsson og Vagn Ebenezersson, sem bjuggu á Dynjanda í þrjá aldarfjórðunga á 19. öld. Báðir þóttu þeir göldróttir og fóru af þeim ýmsar sögur.
Á Fremri bænum á Dynjanda reistu Benedikt Benediktsson og Rósa Elíasdóttir fyrsta timburhúsið í Grunnavíkurhreppi árið 1906. Þau ráku um tíma útibú Ásgeirsverslunar niðri við sjóinn undan Dynjanda. Samtímis þeim á Neðri bænum bjuggu Einar Bæringsson og Engilráð, systir Benedikts. Synir þeirra, Alexander og Jóhannes voru síðustu ábúendur á Neðri bænum, en þaðan fluttu þeir ásamt fjölskyldum sínum árið 1948. Jóhannes og kona hans, Rebekka Pálsdóttir frá Höfða, fluttu að Bæjum á Snæfjallaströnd. Síðustu ábúendur á Dynjanda voru Hallgrímur Jónsson og Kristín Benediktsdóttir, dóttir Benedikts, sem var ljósmóðir í Grunnavíkurhreppi óslitið frá 1922-1962. Þau fluttu að Sætúni í Grunnavík vorið 1952 þar sem þau bjuggu í tíu ár og voru meðal þeirra sem síðastir fluttu þaðan. Hallgrímur ritaði bókina Saga stríðs og starfa um líf þeirra Kristínar í Grunnavíkursveit í rúma hálfa öld.

Fornt eyðiból er tilgreint innan lands Dynjanda í Jarðabókinni, Öldugil í botni Leirufjarðar. Er ætlað að þar hafi byggð lagst af á fimmtándu öld eða þar um bil í jökulhlaupi og vatnagangi.

Ef við snúum okkur til fjalls, þá sjáum við dal ganga til suðurs innan við Dynjanda. Það er Dynjandisdalur og var þar alfaraleið um svokallaða Dalsheiði að Unaðsdal á Snæfjallaströnd, 574 m þar sem hæst er, löng og fremur leiðinleg yfirferðar sökum þess hversu mikið grjót er á henni.

Niður úr Dynjandisdal fellur samnefnd á, sem beljar fram með fossinn Dynjanda dynjandi nokkra metra frá fjörunni. Um foss þennan kvað Hannes Hafstein:

„Alla daga Dynjandi

drynur ramma slaginn.

Gull úr hrönnum hrynjandi

hverfur allt í sæinn.”

Fallegt er að sjá þegar ber saman fossinn og Tröllafell, sem rís upp milli Dynjandisdals og Múladals. Tröllafell er sennilega forn gosrásarfylling úr basalti, sem hefur myndast í eldstöðinni innst í Jökulfjörðum. Mikið stuðlaberg er í fellinu og standa sumir stuðlarnir eins og stólpar í hlíðunum.

Árið 1849 unnu þrjár konur frá Dynjanda það frækilega afrek með snarræði sínu og dugnaði að bjarga fjórum mönnum frá Kjós og Leiru úr bráðum sjávarháska úti á Leirufirði. Þessar konur voru Þuríður Jónsdóttir, kona hreppstjórans, Vagns Ebenezerssonar, Ingibjörg Stígsdóttir, kona Gídeons Bjarnasonar bónda á Dynjanda og Guðriður Sigmundsdóttir vinnukona nefnds Vagns

Flæðareyri

Mætar, ljúfar minningar

mannlífs vors af fundum

þá farið var um Fjörðurnar

að Flæðareyri stundum.

Austan Höfða í mynni Leirufjarðar er Flæðareyri en þar lýkur ferðinni. Þar var byggt samkomuhús á fjórða áratug síðustu aldar. Ungmennafélagið Glaður stóð að byggingu þess. Halldór B. Halldórsson á Ísafirði átti Höfða og gaf bæði land og sement til byggingar hússins, en bændur í Grunnavíkurhreppi gáfu hver andvirði lambs til að standa undir öðrum kostnaði. Fólk kom gangandi yfir Dalsheiði á fjórða áratugnum til að fara á dansleiki á Flæðareyri og gisti þá gjarnan í hlöðunni á Höfða. Nú notar Grunnvíkingafélagið það sem sumarbústað og samkomustað þegar heimamenn mæla sér mót á nokkurra ára fresti til að halda gleði kveiktra af æskuminningum; liggja í tjöldum og stíga dans um bjartar nætur.

Ferðin er tileinkuð minningu Einars Rósinkars Óskarssonar, Jóhannessonar frá Dynjanda sem hóf ferð sína yfir í sumarlandið  á staðnum sem var honum kærastur, stóð honum hjarta næst. Það voru ófá skipti sem hann hýsti ferðalanga eða leiðbeindi þeim sem leið áttu hjá Dynjanda, margir hverjir blautir og hraktir eftir langt ferðalag.

Heimildir: Árbók FÍ 1994, Guðrún Ása Grímsdóttir, Horfin híbýli og huldar vættir í Snæfjalla- og Grunnavíkurhreppum hinum fornu, Ólafur J. Engilbertsson tók saman, Göngubók Snorra Grímssonar Hornstrandir og Jökulfirðir, gönguleiðir um Hornstrandir og Jökulfirði.

DEILA