Suðureyri: Vestfirski fornminjadagurinn á laugardaginn

Eyþór Eðvarðsson.

Vestfirski fornminjadagurinn verður haldinn í fjórða skiptið á laugardaginn í Grunnskólanum á Suðureyri laugardaginn 6. ágúst kl. 09:00-12:00. Enginn aðgangseyrir og öll velkomin. Áherslan verður á Vestfirði og erindin verða fróðleg, fræðileg og skemmtileg.

Fyrstur verður Elfar Logi með fyrirlestur sem hann nefnir Leiklist á landnámsöld og mun hann m.a. koma inn á söguna um Gísla Súrsson. Næstur á eftir honum er Orri Vésteinsson prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands. Hann mun fara yfir það sem fræðin segja okkur um hið raunverulega landnám Íslands. Miklar rannsóknir eru til í fjölmörgum fræðigreinum um landnámið. Orri þekkir vel til fræðanna og mun segja frá nýjustu kenningunum.

Eyþór Eðvarðsson, sem er áhugamaður um örnefni, mun segja frá mikilvægi örnefna, skráningu þeirra og staðsetningu. Hann mun útskýra nokkur torskilin örnefni á Vestfjörðum og víðar.

Eftir hlé mun Margrét Hallmundsdóttir fornleifafræðingur segja frá 11 ára rannsóknastarfi í verkefninu Arnarfjörður á miðöldum. Margt óvænt hefur komið fram sem varpar nýju ljósi á landnám á Vestfjörðum. Eftir Margréti kemur María Óskarsdóttir sem í yfir 20 ár hefur safnað upplýsingum um franska sjómenn sem komu hingað á skútuöldinni.  Þeirra saga hefur ekki verið sögð og hún nefnir þetta týnda tímabilið í sögu Íslands.  Einstakt efni sem mjög lítið hefur verið sagt frá og fáir þekkja.

Síðasti fyrirlesturinn fjallar um leitina að landnámsskálanum í Súgandafirði. Eyþór Eðvarðsson formaður Fornminjafélagsins mun segja frá niðurstöðu Gunnars Grímssonar sem kom í júní sl. með þrívíddardróna til að taka myndir af tóftum í Staðardal. Tilefnið var tóft sem fannst nálægt verbúðarminjum í Staðardalnum og líkist skála. Með drónanum tókst að greina fjölmargar minjar, þekktar og óþekktar. Eyþór mun fara yfir niðurstöður Gunnars og sýna áður óþekktar tóftir sem segja sögu mannlífs í Staðardal.

Gísli Súrsson.
Landnám.
Örnefnaskráningin.
Fornminjauppgröftur í Arnarfirði.
Mynd með fröskum fiskimönnum.
Vestfirski fornminjadagurinn.

DEILA