Hagsmunaaðilar í veiði, hvalaskoðun, útivist og sjómennsku hafa skorað á Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að friða Eyjafjörð fyrir sjókvíaeldi á laxi. Þetta kemur fram í tilkynningu. Arnarlax á Bíldudal vinnur nú að umhverfismati fyrir 10.000 tonna laxeldi í Eyjafirði.
Í áskoruninni segir meðal annars:
„Við undirrituð tökum heilshugar undir efasemdir þínar um fyrirhugað sjókvíaeldi á laxi í Eyjafirði. Einnig lýsum við yfir ánægju með ummæli þín þar sem þú segist vilja gæta varúðar og verja náttúruna gegn umhverfisspjöllum af völdum laxeldis í sjó.
Við leggjumst alfarið gegn sjókvíaeldi á laxi í Eyjafirði. Fyrirhugað risaeldi á 10.000 tonnum af laxi myndi spilla hreinni ímynd fjarðarins, skaða hagsmuni ferðaþjónustu, valda smábátaeigendum búsifjum, bitna harkalega á villtum Atlantshafslaxi sem gengur í ár á svæðinu og að öllum líkindum eyða sjóbleikjustofnum í Eyjafirði.“