Ný heildarlög um áhafnir

Ný heildarlög um áhafnir skipa voru nýlega samþykkt á Alþingi og taka lögin gildi 1. janúar 2023.

Markmið laganna er að tryggja öryggi áhafna íslenskra skipa og farþega, efla varnir gegn mengun frá skipum og tryggja meðal annars skilvirka menntun og þjálfun áhafna, skírteinisútgáfu, lágmarksmönnun, lögskráningu og bæta vinnuskilyrði áhafna.

Lögunum er einnig ætlað að stuðla að jöfnu aðgengi kynjanna að menntun, þjálfun og störfum um borð í íslenskum skipum.

Með lögunum er lagaumhverfi um áhafnir skipa einfaldað þannig að ein heildarlög koma í stað fernra laga.

Undanþágunefnd og mönnunarnefnd skipa lagðar niður og verkefni þeirra færð til Samgöngustofu.

Í frumvarpi til laganna, sem ráðherra mælti fyrir í vetur, var lagt til að kveðið væri skýrar á um lágmarksmönnun réttindamanna á smáskipum að teknu tilliti til útivistar þeirra, þ.e. skipa sem eru 15 metrar og styttri að skráningarlengd. Markmiðið væri að fylgt verði svokallaðri 14 klst. reglu á grundvelli 64. gr. sjómannalaga. Það þýðir að þegar útivist þeirra færi yfir 14 klst. skuli ávallt vera tveir skipstjórnarmenn um borð með tilskilin réttindi.

Í meðförum þingsins var ákvæði til bráðabirgða samþykkt sem heimilar hásetum, sem hafa að baki siglingatíma í tólf mánuði á síðastliðnum þremur árum, að gegna stöðu stýrimanns sé útivist skips styttri en 19 klst. Gildir ákvæði þetta til 1. júlí 2024.

Nýtt ákvæði kveður á um að þegar eigandi smáskips (skv. skipaskrá) er lögskráður sem skipstjóri og smáskipavélavörður og er einn um borð, þurfi ekki stýrimann eða annan smáskipavélavörð þótt útvist fari fram yfir 14 klst.

DEILA