Knattspyrnan ávallt skipað stóran sess hjá Ísfirðingum

Sigurður er að leggja lokahönd á sögu ísfirskrar knattspyrnu.

Að undanförnu hefur Sigurður Pétursson  sagnfræðingur setið sveittur við ritun sögu ísfirskrar knattspyrnu. Það er Púkamótið sem stendur að útgáfu bókarinnar og kemur hún út 23.júní í sumar en þá hefst einmitt á Ísafirði fjórtánda púkamótið. „Þeir komu að máli við mig um að skrifa þessa bók og þar sem þetta er sameiginlegt áhugamál þá þurfti ég ekki að hugsa mig lengi um og frá því byrjun árs 2016 hef ég verið að safna efni og skrifa,“ segir Sigurður.

Knattspyrnuiðkun hófst á Ísafirði upp úr 1900, fljótlega á eftir Reykvíkingum og í bókinni er knattspyrnusagan rakin allt fram á síðasta ár. „Ísfirsku knattspyrnufélögin tvö sem börðust hvað harðast um áratugaskeið voru bæði endurvakin á síðasta ári. Vestri var stofnaður í janúar í fyrra og Hörður fór aftur að keppa í fótbolta. Bókin endar þar sem þessi tvö félög eru komin aftur á sjónarsviðið.“

Í bókinni er sérstök umfjöllun um ísfirska landsliðsmenn. „Sá fyrsti var Björn Helgason og þeir síðustu eru ungir menn, Matthías Vilhjálmsson og Emil Pálsson. Sá fyrri er ríkjandi Noregsmeistari með Rosenborg og sá síðari Íslandsmeistari með FH,“ segir hann.

Ísfirskar knattspyrnukonur árið 1914.

Kvennaknattspyrnan fær sinn sess í bókinni og Sigurður segir það ekki á allra vitorði að fyrsta kvennaknattspyrnuliðið á Íslandi var stofnað á Ísafirði. „Árið 1914 var Knattspyrnufélagið Hvöt stofnað til að stunda knattspyrnu kvenna. Félagið lifði að vísu ekki nema í tvö ár en er engu að síður merkilegt í sögu íslenskrar knattspyrnu.“

Eftir að Hvöt lagði upp laupanna lá kvennaknattspyrnan í dvala í áratugi og það var ekki fyrr en um 1980 að hún hófst á ný á Ísafirði. Fljótlega komast þær upp í efstu deild og um tíma spiluðu bæði karla- og kvennalið ÍBÍ í efstu deild á því sem má kalla gullaldarár ísfirskrar knattspyrnu.

Sigurður segir að ritun sögu um sérhæft efni eins og eina íþróttagrein sé í aðra röndina alltaf saga þess samfélags sem viðfangsefnið er sprottið úr. „Við getum nefnt samgöngurnar. Á fyrstu áratugunum sigldu liðin milli landshluta. Víkingur og Fram komu siglandi til Ísafjarðar árið 1921 og um 1940 kom KR fljúgandi vestur fyrst liða.“

Hann segir að gríðarmikið sé til af heimildum um sögu knattspyrnunnar á Ísafirði. „Á Skjalasafninu eru til fundargerðir og annálabækur félaganna sem hafa stundað knattspyrnu í þessa rúmu öld sem Ísfirðingar hafa sparkað bolta. Þá hafa fjölmiðlar ávallt haft áhuga á knattspyrnu og greint vel og skilmerkilega frá leikjum og keppnisferðalögum og það sýnir vel hvaða sess knattspyrnan hefur haft í hugum bæjarbúa.

Honum er ekki kunnugt um að sambærileg bók hafi verið gefin út á Íslandi. „Einstök félög hafa gefið út vegleg rit um sína sögu en ég veit ekki um neina bók um knattspyrnusögu eins byggðarlags, segir Sigurður.

Síðustu vikur hefur áhugasömum kaupendum boðist að kaupa bókina á sérstöku tilboðsverði og um leið að rita nafn sitt í sérstaka heillaóskaskrá í bókinni.  Síðar í vikunni fer bókin í prentun og því síðustu forvöð að skrá sig á heillaóskaskrá bókarinnar. Það er hægt að gera á heimasíðu Púkamótsins, www.pukamot.is/pukabok

DEILA