Fjarvera Baldurs sýnir lítilsvirðingu í garð íbúa

Breiðafjarðarferjan Baldur.

Sú ákvörðun að taka Baldur úr áætlun yfir Breiðafjörð og þar með setja ferðaþjónustu og þungaflutninga í uppnám er aðeins eitt lóð á vogarskálarnar í þeirri lítilsvirðingu sem íbúum og rekstraraðilum á sunnanverðum Vestfjörðum er sýnd þegar kemur að samgöngumálum. Þetta kemur fram í bókun bæjarráðs Vesturbyggðar þar sem ákvörðuninni er mótmælt harðlega.

Í bókun bæjarráðs er bent á að ferðir Baldurs yfir Breiðafjörð eru mikilvægar fyrir ferðaþjónustu á svæðinu svo og aðrar útflutningsgreinar.
Bæjarráð segir að Baldur sé afar mikilvæg fyrir svæðið því ekki er hægt að treysta á öruggar samgöngur á landi. Ferðaþjónustuaðilar á svæðinu finna glögglega fyrir þessu þar sem nokkuð hefur verið um afbókanir á gistihúsum og hótelum og eins hefur lítið verið um bókanir í maí samanborið við sama tíma á síðasta ári.
Þá bendir bæjárráð á ástand Vestfjarðavegar 60 sem að hluta til er löngu úreltur malarvegur sem oft og tíðum sætir þungatakmörkunum. Ef settar eru á þungatakmarkanir þýðir það að flutningabílar komast hvorki til né frá svæðinu og  veldur því að mikil verðmæti geta tapast.
„Það er fyrir löngu kominn tími til að samgöngumálum á þessu svæði sé komið í lag svo hægt sé að treysta á öruggar samgöngur til og frá svæðinu. Á meðan að ekki er hægt að tryggja samgöngur á landi er ferjan Baldur lífæð þessa svæðis og því óásættanlegt að henni sé kippt úr umferð,“ segir í bókuninni.

DEILA