Ferðafélag Ísfirðinga: Skötufjarðarheiði – tveir skór – laugardaginn 16. júlí

Brottför: Kl. 8 við Bónus og 8:30 í Súðavík.

Gengið er upp úr Skötufirði og yfir í Heydal. Þar bíður þeirra ferðalanga sem það vilja hlaðið kaffiborð, heitir pottar, sundlaug og afslöppun. Þvílíkur endir á skemmtilegri gönguferð undir leiðsögn manns sem les land og leiðir eins og honum er einum lagið.

Vegalengd um 14 km, göngutími um 6 klst. Hækkun í um 550 m hæð.

Fararstjórn: Barði Ingibjartsson

Saga byggðar við Djúp nær allt aftur til um 900 en þá nam Snæbjörn sonur Eyvindar Austmanns, bróðir Helga magra land á milli Langadalsár og Mjóafjarðar og bjó í Vatnsfirði. Gunnsteinn og Halldór synir Gunnbjarnar Úlfssonar kráku námu Skötufjörð, Laugardal, Ögurvík og að Mjóafirði. Eyvindur Kné og kona hans Þuríður rúmgylta námu Álftafjörð og Seyðisfjörð og bjuggu þar.

Göngufólk í þessari göngu mun því ganga í landnámi þeirra bræðra Gunnsteins og Halldórs Gunnbjarnarsona hvort sem þeim líkar eða öllu heldur hefði líkað það betur eða verr.

Reimaðu á þig gönguskóna og láttu sjá þig í þessari mögnuðu göngu.

Skötufjörður er 16 km langur en þröngur. Hann gengur inn í Glámuhálendið milli Hvítaness og Skarðseyrar í Ögursveit. Inn af firðinum heitir Skötufjarðarheiði. Hún er nokkuð há (550 m) og bratt upp á hana úr Skötufirði og Mjóafirði.

Að vestanverðu heitir hlíðin Eyrarhlíð, eftir eyðibýlinu Eyri, sem er þar á svolítilli undirlendisspildu við sjóinn, en Fossahlíð að norðan. Við vestanverðan Skötufjörð voru 5 bæir, þar á meðal Borg í kjarrivöxnum fjarðarbotninum, en 7 bæir á norðurströndinni, 3 fyrir innan og 4 fyrir utan Fossahlíð.

Hvítanes er nesið milli Hestfjarðar og Skötufjarðar. Þar var samnefnt prestsetur í Ögurþingum árin 1933-46 og lengi landsímastöð. Þarna lágu sóknarmörk milli Eyrarsóknar í Seyðisfirði og Ögursóknar og fyrrum mörk milli prófastdæma Norður- og Vestur-Ísafjarðarsýslna.

Mjóifjörður er eins og nafnið ber með sér langur og mjór fjörður. Breidd í fjarðarmynni er 2,2 km milli Digraness og Miðtanga. Fjörðurinn er svipaður á breidd inn undir Hrútey, sem er í miðjum firði, tæpa 6 km innan fjarðamynnis. Þar fyrir innan er fjörðurinn mjórri eða rúmlega 1 km á breidd og breytist lítið inn undir botn. Lengd frá fjarðarmynni í botn er 18,4 km en flatarmál fjarðarins er rúmir 25 km2.

Við fjarðarmynni er dýpi 40-60 m en með landinu austan megin og inn við Hrútey minna en 40 m dýpi. Margar ár renna í fjörðinn og eru þær mestu í botni fjarðarins og Gljúfurá sem er fyrir miðjum firði vestan megin.

Í firðinum voru nokkrir jarðir í byggð en í dag eru þær flestar nýttar undir sumarhús. Í Heydal er í dag rekin ferðaþjónusta. Saga um búsetu í dalnum er löng og ummerki um að hann hafi  verið þétt byggður forðum. Í grein eftir Guðbjörgu Ásgeirsdóttur sem birtist í Tímanum árið 1963 segir hún m.a. ,,Þarna hefur líka verið þéttbýlt…Fyrir og eftir aldamótin síðustu var þríbýli í Heydal og oft húsfólk á Galtarhrygg hjá aðalbúendum þar. Einu sinni endur fyrir löngu, hefðu verið tólf bæir í  Heydalnum og þar að auki eitt prestsetur, er Kirkjuból nefndist. Það stóð á eyri við ána, milli Heydals og Galtarhryggjar. Þarna sést móta fyrir grafreit og leiðum utan til við tóftirnar“

Heydalur liggur inn frá botni Mjóafjarðar. Hlíðar hans eru víðast klæddar hávöxnum skógi upp á brúnir. Þar er skjólsamt og veðursæld mikil.

Guðmundur Guðmundsson skólaskáld orti svo um dalinn:

Hafirðu litið Heydal vinur,

hjartans, játa muntu í inni

sannir víst, að sæludalir,

séu til á ættjörð þinni.

„Viljirðu Íslands sveitasælu

sjá, er skáldin lýsa og hrósa,

komdu þá um kvöld í Heydal,

komdu í sæludalinn ljósa.“

Margir góðir bændur hafa búið í Heydal. Þar má einna helst nefna Elínus Jóhannesson (1888 – 1858) sem þar bjó ásamt eiginkonu sinni Þóru Sigríði Runólfsdóttur (1878 – 1944) á árunum 1912 – 1952. Hann var höfðingi heim að sækja og oft var gestkvæmt í Heydal á sunnudögum í júlí og ágúst. Sá siður hélst fram á síðustu ár, að fólk úr þremur innstu hreppum Djúpsins kæmi saman í Heydalsskógi einhvern góðviðrisdag. Slapp þá enginn við að koma heim að bæ þeirra hjóna og þiggja góðgerðir. Oft mun hafa komið þangað á einum degi langt á annað hundrað manns. Á sumrin var alltaf margt fólk í kringum Elínus, ekki síst börn af mölinni. Þau sóttust eftir að vera hjá honum sumar eftir sumar.  Öllum vildi Elínus gott gera, og öllum var hann kær, en þó tók hann börnin fram yfir allt. Glaðlegt viðmót hans og hjartahlýja vann hugi allra. Matthías Bjarnason, sem lengi var þingmaður og ráðherra fyrir Vestfirðinga, sagði í viðtali sem tekið var við hann að Elínus hefði verið einn skemmtilegasti Djúpmaðurinn sem hann hefði kynnst og að hann hafi alltaf séð bjartar hliðar á lífinu þrátt fyrir að hafa gengið í gegnum mjög erfiða ævi. Þeir sem vilja fræðast meira Elínus er bent á bókina Ævintýradalurinn en í henni eru endurminningar Sverris Gíslasonar þar sem hann segir frá uppvexti sínum í Heydal og samskiptum við fóstra sinn, Elínus.

Stella Guðmundsdóttir og eiginmaður hennar Pálmi Sigurður Gíslason, ættaður frá Bergstöðum í Svartárdal í A – Húnavatnssýslu, kaupa jörðina árið 2000. Pálmi lést árið 2001. Í dag rekur Stella ásamt syni sínum, Gísla Pálmasyni, fjölskyldu- og náttúruvæna ferðaþjónustu á jörðinni.

Það verður ekki amalegt að enda þessa áhugaverðu göngu yfir Skötufjarðarheiði á því að koma við í Heydal og gæða sér á þeim veitingum sem þar eru í boði. Sjáumst í göngunni!


DEILA