Sýning um bresku rokkhljómsveitina Rolling Stones verður opnuð í Safnahúsinu á Ísafirði laugardaginn næsta, 9. júlí 2022, kl. 14. Sýningin er haldin til að minnast 60 ára starfsafmælis sveitarinnar og jafnframt þess atburðar þegar söngvari og önnur aðalsprauta Rolling Stones, Mick Jagger, heimsótti Ísafjörð um verslunarmannahelgina 1999. Við formlega opnun sýningarinnar á laugardag verður tónlistaratriði við hæfi! Sýningin verður opin framyfir 10. ágúst og er öllum opin á opnunartíma Safnahússins á Ísafirði.
Hljómsveitin The Rolling Stones er nú á tónleikaferðalagi um Evrópuborgir í tilefni af því að sex áratugir eru síðan sveitin kom í fyrsta sinn saman á djassklúbbi í úthverfi London 12. júlí árið 1962. Þeir Brian Jones, Mick Jagger og Keith Richard léku þá nokkur blúslög með félögum sínum. Síðar komu trymbillinn Charlie Watts og bassaleikarinn Bill Wyman til liðs við sveitina og þannig skipuð slógu þeir í gegn næstu ár. Þrátt fyrir mannabreytingar og fráfall hins elskaða trommara á síðasta ári heldur hljómsveitin áfram að leika og spila fyrir aðdáendur sína víða um lönd, þó að upprunalegir hljómsveitarmeðlimir nálgist nú óðum áttunda áratuginn. Rolling Stones hafa aldrei leikið á Íslandi en aðdáendur sveitarinnar hafa þó enn ekki gefið upp vonina um að einn daginn komi að því. Þangað til sá dagur rennur upp vilja áhangendur Rolling Stones gefa Ísfirðingum og gestum þeirra kost á að upplifa stemminguna kringum elstu og mestu rokksveit allra tíma í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði með ógleymanlegri sýningu á munum og minjum sem tengjast sögu sveitarinnar og heimsókn Micks Jagger til Ísafjarðar árið 1999.
Íbúar á Ísafirði ráku margir í rogastans laugardagsmorgunn um verslunarmannahelgina árið 1999, þegar það spurðist út um bæinn að þar væri staddur Mick Jagger söngvari bresku rokkhljómsveitarinnar Rolling Stones. Steinninn rúllandi kom til bæjarins með vinafólki sem sigldi á grámálaðri snekkju kringum Vestfirði. Hópurinn gekk á land að morgni, skoðaði sig um í miðbænum, kom við í bókabúðinni, fékk sér hjólatúr um bæinn og inneftir Seljalandsvegi, kíkti við á byggðasafninu í Neðsta, þar sem unglingar sýndu þjóðdans með harmonikkuspili. Hópurinn hélt svo aftur út á sjó, sigldi um Djúpið og fyrir Horn. Næsta dag kom flugvél og sótti Mick Jagger og ferðafélaga hans á Ísafjarðarflugvöll og flaug með hópinn norður að Mývatni og þaðan suður og úr landi. Lauk þar með heimsókn Mick Jaggers til landsins í það sinn. Frásögn af viðdvöl söngvarans á landinu var rifjuð upp á RÚV fyrir nokkrum árum og má finna hér.
Þetta mun vera í eina sinn, svo vitað sé, sem meðlimur rokksveitarinnar hefur haft viðdvöl á landinu, en aðdáendur Rollinganna bíða enn eftir þeim degi að hljómsveitin leiki hér á landi. Aðdáendur hljómsveitarinnar hér á landi eru fjölmargir og á Ísafirði og í nágrannabyggðum er harðsnúinn kjarni sem ekki lætur sér nægja að leggja í langferðir austur og vestur um haf til að heyra og sjá hljómsveitina leika á tónleikum, heldur hefur nokkrum sinnum efnt til tónleikahalds þar sem eingöngu eru leikin Stóns-lög. Það er þó algjör tilviljun að tveim vikum fyrir heimsókn Micks Jaggers til Ísafjarðar var einmitt haldið slíkt Rolling Stóns-kvöld í Félagsheimilinu í Hnífsdal með vestfirskum tónlistarmönnum. Þar voru í fararbroddi gítarleikararnir Kristinn Níelsson og Halldór Gunnar Pálsson og heiðursgestur var enginn annar en eðalrokkarinn Rúnar Júlíusson úr Keflavík.
Það þykir því við hæfi að Ísfirðingar haldi uppi nafni elstu og mestu rokkhljómsveitar heimsins með sýningu um feril sveitarinnar í sex áratugi og tengsl hennar við Ísafjörð. Þess vegna hefur verið sett upp sýning í Safnahúsi Ísfirðinga, Gamla sjúkrahúsinu á Eyrartúni, með munum og minjum frá 60 ára ferli Rolling Stones ásamt upptökum og viðtölum í tengslum við komu Mick Jaggers til Ísafjarðar. Að sýningunni standa nokkrir valinkunnir Stónsarar með iðnaðarmennina Guðmund Grétar Níelsson, Flosa Kristjánsson og Guðmund Óla Kristinsson í fararbroddi. Þeim til aðstoðar hafa komið að uppsetningu sýningarinnar tónlistarmennirnir Kristinn Níelsson, Kristján Þór Bjarnason og Sigurður Pétursson sagnfræðingur, auk fleiri velunnara. Sýningin hefur sett á fót feisbókarsíðu þar sem hægt er að sjá meira um atburðinn.