Minning: Vagna Sólveig Vagndóttir

Um miðja 18. öld bjuggu hjónin Sigurður Ásmundsson og Guðrún Ívarsdóttir í Ásgarði í Grímsnesi.  Við þau er kennd Ásgarðsætt.  Sonur þeirra var síra Jón Sigurðsson prestur á Stað á Snæfjallaströnd og síðar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.  Eiginkona hans var Ingibjörg Ólafsdóttir lögsagnara á Eyri í Seyðisfirði Jónssonar og Guðrúnar Árnadóttur prests í Hvítadal í Saurbæ.  Börn þeirra voru Einar borgari, stúdent og verslunarstjóri í Reykjavík, síra Sigurður Jónsson á Hrafnseyri og Helga, giftist Benedikt Garbríel Jónssyni, síðast á Krkjubóli í Skutulsfirði. Einar borgari átti Ingveldi Jafetsdóttur, gullsmiðs í Reykjavík, Illugasonar.

Síra Sigurður kvæntist Þórdísi, dóttur Jóns prests Ásgeirssonar á Mýrum í Dýrafjarðarþingum, Söndum í Dýrafirði og í Holti í Önundarfirði.  Eiginkona síra Jóns og móðir Þórdísar var Þorkatla Magnúsdóttir prests á Söndum, Mála-Snæbjarnarsonar á Sæbóli á Ingjaldssandi Pálssonar.  Móðir síra Magnúsar var fyrri kona Snæbjarnar, Kristín Magnúsdóttir digra í Vigur Jónssonar. Þá var og sonur Mála-Snæbjarnar og frú Kristínar síra Hákon á Álftamýri á norðurströnd Arnarfjarðar.  Hann var móðurafi síra Eggerts á Ballará á Skarðsströnd, föður síra Friðriks, höfundar hins mikla ævisagnarits, er út kom undir heitinu “Úr fylgsnum fyrri aldar” árið 1950. Við seinni konu  sinni, Ástríði Sigurðardóttur frá Ingjaldssandi, eignaðist Snæbjörn soninn Torfa, bónda á Brekku og Kirkjubóli í Dýrafirði.       

Þeim síra Sigurði á Hrafnseyri og frú Þórdísi varð þriggja barna auðið.  Voru þau Jón skjalavörður í Kaupmannahöfn og alþingismaður, átti Ingibjörgu Einarsdóttur borgara Jónssonar og voru þau hjón bræðrabörn; Jens rektor Lærða skólans í Reykjavík, átti Ólöfu Björnsdóttur yfirkennara Gunnlaugssonar, en meðal barna þeirra var síra Sigurður prófastur í Flatey, átti Guðrúnu Sigurðardóttur kaupmanns í Flatey Johnsen; og Margrét í Steinanesi í Arnarfirði síðar í Hokinsdal, átti Jón skipherra Jónsson frá Suðureyri við Súgandafjörð.  Einn sonur Margrétar, Sigurður, fór í fóstur til móðurbróður síns, Jóns í Kaupmannahöfn og varð sýslumaður í Snæfellsness- og Hnappadalssýslu.  Annar sonur Margrétar var Þorleifur bóndi í Steinanesi og seinna í Hokinsdal, átti Kristínu Egilsdóttur frá Trostansfirði.  Sonur þeirra var Vagn Þorleifsson, átti Bjarneyju Sólveigu Guðbjartsdóttur frá Bíldudal.

Hjónin Vagn og Sólveig voru foreldrar Vögnu og systkina hennar. Þau bjuggu fyrst á Ósi í Arnarfirði, en seinna á Álftamýri og síðast á Þingeyri. Öll voru börn þeirra dugnaðarfólk og vel af Guði gerð.  Vagna starfaði lengst af við fiskverkun, en í tómstundum skar hún úr rekaviði listilegar standmyndir og hélt á þeim sýningar, auk þess sem hún mótaði í leir og saumaði út.  Hún var prýðisvel greind eins og hún átti kyn til, fylgdist til hinstu stundar grannt með á vettvangi dagsins og var alls óbangin að láta í ljós skoðanir sínar; löngum óblind á hið broslega í hverjum hlut.

Það er mikill sjónarsviptir að Vögnu Sólveigu og hennar verður  saknað.  Guð blessi minningu hennar og verndi og huggi ástvini hennar alla.

Gunnar Björnsson, pastor emeritus.

DEILA