Einn nafntogaðasti kvennakór landsins

Einn nafntogaðasti kvennakór landsins, Vox Feminae, heldur tónleika í Ísafjarðarkirkju á sunnudaginn. Kórinn tekur þátt í landsmóti íslenskar kvennakóra á Ísafirði sem hefst á fimmtudaginn og af því tilefni heldur kórinn sérstaka tónleika í Ísafjarðarkirkju sunnudaginn 14. maí kl. 13.30. Tónleikarnir bera yfirskriftina Meyjar mögur sem sótt er í elsta varðveitta sálm Norðurlanda, Heyr, himna smiður, eftir Kolbein Tumason en sálmurinn verður fluttur á tónleikunum við lag Þorkels Sigurbjörnssonar.

Á tónleikunum í Ísafjarðarkirkju verða flutt trúarleg verk eftir íslensk samtímatónskáld s.s. Hildigunni Rúnarsdóttur, Báru Grímsdóttur og Tryggva M. Baldvinsson auk þess sem flutt verða verk eftir Ísfirðingana Jón Ásgeirsson og Hjálmar H. Ragnars. Þá verða einnig flutt erlend trúarleg verk, meðal annars verk eftir miðaldatónskáldin Orlande de Lassus og Tomás Luis de Victoria.

Vox feminae var stofnaður árið 1993 af stjórnanda kórsins, Margréti J. Pálmadóttur sem enn stendur við stjórnvölinn. Kórinn hefur ávallt lagt áherslu á flutning trúarlegrar tónlistar og íslenskra sönglaga og þjóðlaga, auk þess sem hann hefur lagt rækt við samtímatónlist.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og allir eru hjartanlega velkomnir.

DEILA