Ársreikningur Ísafjarðarbæjar fyrir síðasta ár var tekinn til seinni umræðu og samþykktur á bæjarstjórnarfundi fyrir helgi. Afkoma sveitarfélagsins árið 2016 var mun betri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Rekstrarniðustaða A og B hluta var jákvæð um 225 milljónir króna, en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir 18 milljóna króna afgangi. Rekstrarafkoma A hluta var jákvæð um 125 milljónir króna, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 43 milljóna króna halla. B hluti skilaði 100 milljóna króna afgangi, en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir 60 milljóna króna afgangi.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins (A og B) jukust um 465 milljónir króna frá árinu 2015 og útgjöld um 228 milljónir króna.
Heildarskuldir bæjarins, A og B hluta, voru 6.476 milljónir króna í árslok 2016 og hækkuðu úr 6.387 milljónum króna frá fyrra ári. Inn í þeim skuldum eru einnig lífeyrisskuldbingar.
Í sveitarstjórnarlögum sem tóku gildi árið 2012 var lögð sú lína að hlutfall heildarskulda af tekjum sveitarfélaga mætti ekki fara yfir 150 prósent, en hlutfallið segir til um getu sveitarfélaga til að greiða af skuldum sínum. Skuldaviðmið Ísafjarðarbæjar vænkast talsvert milli ára, var 127 prósent í árslok 2015 og um síðustu áramót var það komið niður í 112 prósent.
Eigið fé Ísafjarðarbæjar var 1.209 milljónir króna í árslok 2016 og jókst um 260 milljónir króna milli ára.
smari@bb.is