Marhaðshelgin í Bolungavík: katalónskir dansarar á laugardaginn

Lúðrasveitin Banda de Música FCSM&Associació Vila de Falset frá Katalóníu á Spáni leikur katalónska tónlist ásamt dönsurum laugardaginn 2. júlí 2022 kl. 13:00 á markaðshelginni í Bolungarvík og mánudaginn 4. júlí kl. 12:00 í Hörpuhorninu í Hörpu í Reykjavík. 

Lúðrasveitin leikur tónlist eftir tónskáld frá Priorat-héraðinu sem var vinsæl í upphafi 20. aldarinnar fram að spænsku borgarastyrjöldinni árið 1936.

Lúðrasveitin  var stofnuð árið 1974 og flestir meðlima hennar eru yngri en 18 ára en hún er félags- og fræðsluverkefni og í tengslum við hana er rekin tónlistarskóli með fjölmörgum nemendum sem koma fram á tónleikum víðsvegar um Katalóníu á ári hverju.

Lúðrasveitin kemur frá Falset sem er höfuðstaður Priorat-héraðsins í Katalóníu á Spáni en héraðið er frægt fyrir vínframleiðslu. Falset er inni í landi um 120 km vestur af Barselónu.

DEILA