Hljómsveitin Facon frá Bíldudal sextug 17. júní!

Facon í Bjarkarlundi á hljómsveitarferð, f.v.: Jón Ingimarsson. Jón Kr. Ólafsson, Pétur Bjarnason, Jón Ástvaldur Jónsson, Grétar Ingimarsson og Sverrir Einarsson

Á þjóðhátíðardaginn 17. júní 1962 kom nýstofnuð hljómsveit fram í fyrsta sinn á dansleik á Bíldudal. Þetta var hljómsveitin Facon, sem átti eftir að skemmta Vestfirðingum og fleiri landsmönnum langt á annan áratug.

Stofnendur voru Hjörtur Guðbjartsson sem spilaði á hljómborð og saxófón, Jón Ástvaldur Jónsson sem spilaði á gítar, bassa og reyndar flest annað sem þurfti, Jón Ingimarsson trommuleikari og síðast ekki síst söngvarinn, Jón Kr. Ólafsson.

Facon var vinsæl hljómsveit um árabil og varð fyrst vestfirskra danshljómsveita til að gefa út plötu sumarið 1969. Þá hafði Pétur Bjarnason tekið við af Hirti og ýmsar mannabreytingar urðu af og til eins og gengur. Vinsælasta lag plötunnar var „Ég er frjáls,“ sem náði strax vinsældum og heyrist enn af og til. Þá var Pink Floyd lag eftir Sid Barrett á plötunni með íslenskum texta en lag með Pink Floyd hafa ekki aðrar hérlendar hljómsveitir sett á plötu.

Facon átti hátind ferilsins um 1970 en hætti um miðjan áttunda áratuginn. Átti þó „Comeback“ tvisvar á sumarhátíðinni „Bíldudals grænar“ upp úr síðustu aldamótum.

Söngvari Facon, Jón Kr. Ólafsson, fagnar afmælinu með tónleikum í Jónshúsi í Kaupmannahöfn á þjóðhátíðardaginn en önnur hátíðahöld bíða betri tíma.


Facon á sviði á Bíldudal, f.v.: Jón Kr., Grétar, Ástvaldur og Pétur.
Facon 1962.

DEILA