Bræðurnir Aron Ottó og Hilmar Adam Jóhannssynir halda tónleika í Hömrum á í kvöld, en þeir bræður hafa verið í tónlistarnámi við Tónlistarskóla Ísafjarðar síðan þeir voru 5 ára og má segja að Tónlistarskóli Ísafjarðar hafi verið þeirra annað heimili. Þeir kveðja nú Tónlistarskóla Ísafjarðar með þessum tónleikum. Efnisskrá tónleikanna sem hefjast klukkan 20 er fjölbreytt og skemmtileg og er óhætt að lofa góðri skemmtun. Allir eru velkomnir og aðgangseyrir enginn. Gestir þeirra á tónleikunum eru Pétur Ernir Svavarsson, systir þeirra Hanna Lára Jóhannsdóttir og Ásrós Helga Guðmundsdóttir.
Aron Ottó hefur stundað nám á selló, trompet, trommur, gítar, píanó og söng og hefur náð góðum árangri á öllum sviðum. Hann er í framhaldsnámi á píanó og lýkur miðprófi í söng nú í vor. Aron hyggur á framhaldsnám í söng í Tónlistarakademíunni í Szeged á hausti komanda. Bróðir hans Hilmar Adam stundaði nám á fiðlu, trompet, gítar, píanó og söng með góðum árangri. Hann er einnig í framhaldsnámi á píanó og lýkur miðprófi í söng í vor.
Þeir bræður hafa alla tíð verið afar virkir í skólastarfi Tónlistarskólans. Spilað bæði í strengjasveit og lúðrasveit skólans og komið fram fyrir hans hönd víða, bæði hér á Ísafirði og í Reykjavík. Þeir voru í hópi nemenda Beötu Joó sem hlaut Ísmús verðlaunin á Lokahátíð Nótunnar 2013. Aron Ottó hlaut 1. verðlaun í sínum flokki í söngkeppninni Vox Domini sem haldinn var í Salnum í janúar. Hann var líka einn af 10 sem hlaut viðurkenningu fyrir framúrskarandi atriði á Lokahátíð Nótunnar 2017.
annska@bb.is