Vegagerðin hefur greint frá því að til stendur að Herjólfur III muni taka við siglingum á Breiðafirði í september 2023 nema annað hentugra skip finnist í stað Baldurs. Ekki er hægt að nýta Herjólf III á þeirri leið strax en unnið er að undirbúningi breytinga á hafnarmannvirkjum í Stykkishólmi og Brjánslæk svo Herjólfur III eða annað sambærilegt skip geti lagt þar að.
Herjólfur III hefur formlega verið leigður SSL, Strandfaraskip Landsins, ríkisstofnun Færeyja sem sér um almenningssamgöngur. Samningurinn tók gildi 1. júní og gildir til 1. september 2023. Vegagerðin telur samninginn ákaflega mikilvægan enda dýrt og óhentugt að geyma svo stórt skip við bryggju og hafa það ekki í reglulegri notkun.
Herjólfur III verður áfram varaskip fyrir nýja Herjólf og með þessu fyrirkomulagi verður hann mun betur til þess fallinn að þjóna því hlutverki að mati Vegagerðarinnar. Herjólfur III mun fá reglulegt viðhald og þar sem á honum verður áhöfn má segja að viðbragðstími verði í raun styttri ef óvænt atvik koma upp, heldur en þegar skipið er bundið við höfn í Vestmannaeyjum.
Herjólfur III er kominn til Færeyja þar sem hann fer fyrst í slipp en mun síðan sigla svokallaða Suðureyjarleið, frá Þórshöfn til Suðureyjar. Skipið verður aðallega nýtt sem vöruflutningaskip en verður einnig afleysingaferja með farþega ef þörf krefur.