Til hamingju með að ná kjöri. Nú er mikilvægt að vanda sig. Eitt af því sem kjörnir fulltrúar bera ábyrgð á er að þeirra sveitarfélag hafi samráð við fatlað fólk. Nú er lag að nýjar og endurkjörnar sveitarstjórnir gæti að lagaskyldu sinni til að koma upp notendaráðum fatlaðs fólks í hverju sveitarfélagi. Fjölmörg sveitarfélög hafa nú þegar góða reynslu af slíku fyrirkomulagi sem skilar sér í betri ákvörðunum og betri nýtingu á fjármagni, auk þess sem samfélög sem viðhafa samráð verða betri staðir til að búa á.
Hvort sem sveitarfélög hafa starfrækt notendaráð áður, eða hyggjast leggja af stað í þá vegferð núna, þá er mikilvægt að kalla strax eftir tilnefningum frá hagsmunafélögum fatlaðs fólks um einstaklinga á svæðinu til að sitja í þessum ráðum.
Undirrituð hafa verið í sambandi við fatlað fólk í notendaráðum um allt land undanfarin misseri á reglulegum fundum. Auk þess höfum við átt samtal við starfsólk sveitarfélaga og kjörna fulltrúa um þessi mál. Af þeirri reynslu höfum við lært að það virkar vel að kjörnir fulltrúar sitji í slíkum ráðum og séu þannig í beinu talsambandi við fatlaða íbúa í stefnumótun og ákvarðanatöku. Vel hefur gefist að starfsfólk sveitarfélaganna sé frekar í stuðningshlutverkum í þessum nefndum.
Nokkur atriði sem gott er að hafa í huga við skipan og starfrækslu notendaráða:
– Leitast við að hafa hóp fulltrúa fatlaðs fólks ekki of lítinn þannig að fjölbreytileiki náist.
– Tryggja að fatlað fólk sé ekki í miklum minnihluta í notendaráðinu.
– Greiða fyrir setu í ráðinu líkt og greitt er fyrir í öðrum fastanefndum.
– Passa að fundir séu haldnir í aðgengilegu húsnæði og að gögn séu send með hæfilegum fyrirvara fyrir fundi til að hægt sé að kynna sér þau í þaula.
Við skorum hér með á sveitarstjórnarfulltrúa sem þetta lesa, að gera málið að sínu og tryggja að samráð við fatlað fólk sé til fyrirmyndar í ykkar sveit. Ekki hika við að hafa samband hvort sem er í síma eða tölvupósti mottaka@obi.is. ÖBÍ er boðið og búið að aðstoða ykkur varðandi þessi mál og auðvitað til þess að fá tilnefningar um fatlað fólk til samstarfs.
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður Öryrkjabandalags Íslands
Rúnar Björn Herrera Þorkelsson, formaður NPA-miðstöðvarinnar
Katrín Oddsdóttir, mannréttindalögfræðingur