Tónlistarhátíðin Miðnætursól verður í Bolungarvík 30. júní og þar leikur kammersvein Kyiv Soloists frá Úkraínu ásamt gestaleikurum frá Íslandi.
Tónlistarhátíðin Miðnætursól í Bolungarvík var fyrst haldin í Bolungarvík 2019 og þá léku hljóðfæraleikarar í Kyiv Soloists ásamt einleikurum í Félagsheimilinu í Bolungarvík við húsfylli og frábærar undirtektir, en tónleikarnir nú verða í íþróttahúsinu.
Listrænn stjórnandi og framkvæmdastjórnandi hátíðarinnar er Selvadore Rähni skólastjóri Tónlistarskóla Bolungarvíkur.
Á tónleikunum koma fram sem einleikarar Selvadore Rähni klarinettuleikari sem hefur komið fram með heimsklassa tónlistarmönnum víða í Evrópu og í Japan og sonur hans Oliver Rähni sem hefur margoft fengið sérstaka viðurkenningu Nótunnr í Reykjavík og spilað sem einleikari í Dublin, Galway, Reykjavík og Barcelona.
Ein af síðustu flugvélunum, sem fór frá Kyiv áður en stríðið braust út, var vél til Ítalíu, en um borð á henni voru Kyiv Soloists – kammerhljómsveit með 15 meðlimum frá Kyiv á leiðinni í tónleikaferð til Ítalíu.
Um sex klukkustundum eftir brottför þeirra hófst innrás Rússa í landið þeirra. Ferðin átti einungis að vera til Ítalíu en vegna ástandsins hafa þau ekki enn snúið aftur til heimalandsins.