Línuívilnun í steinbít fyrir tímabilið mars – maí var afnumin 18. maí síðastliðinn. Slíkt er gert þegar Fiskistofa telur að viðmiðunarafla í steinbít fyrir tímabilið hafi verið náð.
Samkvæmt reglugerð er ívilnunin 107 tonn af steinbít fyrir ofangreinda þrjá mánuði. Í samantekt Fiskistofu kemur fram að þann 18. maí var aflinn orðinn 134.097 kg og horfur á því að heimildir fiskveiðiársins verði búnar fyrir lok maí.
Alls er ívilnunin 177 tonn yfir allt fiskveiðiárið.
Línuívilnunin gildir fyrir línuveiðar dagróðrabáta með línu, sem beitt er í landi og má landa 20% umfram þann afla í steinbít sem reiknast til aflamarks þeirra.