Alþjóðadagur kvenna í siglingum haldinn í fyrsta sinn

Alþjóðasiglingamálastofnunin (IMO) hefur valið 18. maí til að vekja athygli á stöðu kvenna í siglingum, við sjósókn eða sjávarútvegi.

Þetta er fyrsta árið sem það er gert en dagurinn verður framvegis helgaður þeim. Af þessu tilefni ritaði Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, grein sem m.a. var birt í Morgunblaðinu.

„Í engri starfsstétt er jafnmikill kynjahalli og í sjómennsku. Örfáar konur hafa útskrifast úr skipstjórn eða vélstjórn. Einungis 1% skipstjórnarmenntaðra eru konur en til samanburðar eru konur handhafar tæplega 12% flugskírteina. Af 2542 sem hafa útskrifast af lokastigi vélstjórnar eru 7 konur. Það er þó örlítið bjartara framundan því að nú eru 7% af nemum í skipstjórn konur. Grunnurinn að miklum mun á heildarlaunum kynjanna í sjávarbyggðum stafar ekki síst af háum tekjum karla á sjó.

Samkvæmt Hagstofu voru tæp 9% af þeim sem unnu við fiskveiðar konur en voru 43% af þeim sem unnu við fiskvinnslu. Laun við landvinnslu eru brot af því sem fólk fær fyrir sambærilegt starf á sjó þar sem ríkir jafnrétti og greitt er samkvæmt aflahlut,“ segir í greininni

Greininni lýkur ráðherra með þessu orðum: „Ég vil hvetja stofnanir og fyrirtæki sem hafa sjóinn að vettvangi til að brjóta hefðir og opna dyr sínar og skapa hvetjandi umhverfi þar sem konur njóta jafnræðis á við karla í störfum á sjó.“

DEILA