Á föstudaginn hefst málþingið Vestfirska vorið á Flateyri. Á málþinginu verður staða lítilla sjávarbyggða til umræðu. Ein þeirra sem hafa komið að undirbúningi málþingsins er Jóhanna Kristjánsdóttir kennari og mun hún einnig flytja erindi á málþinginu. „Það vita allir hver þróunin hefur verið í litlum sjávarbyggðum og vonandi fást einhver svör við þessum málefnum sem brenna á fólki eins og hvernig fólk sér fyrir sér framtíð litlu byggðarlaganna við sjávarsíðuna,“ segir Jóhanna.
Málþingið hefst kl. 13 á föstudag og stendur fram eftir degi og hefst svo aftur kl. 10 á laugardag og ráðgert að slíta því seinnipartinn. Það verður haldið á Hafnarbakka 8, kaffistofu gamla hraðfrystihússins sem nú hýsir Ísfell hf. Fyrirlesararnir eru blanda af fræðimönnum og reynsluboltum frá Flateyri.
Þrátt fyrir að málþingið sé haldið á Flateyri og með önfirskan fókus þá segir Jóhanna að staða Flateyrar sé ekkert frábrugðin stöðu fjölda annarra þorpa hringinn í kringum landið. „Það hefur verið langur aðdragandi að þessari byggðaþróun í nafni hagræðingar og maður spyr sig hvort það sé ekki hagstæðast að allir verði búsettir á suðvesturhorninu,“ segir hún.
Aðspurð hvernig hún sér fyrir sér framtíð litlu sjávarþorpanna og Flateyrar segir hún erfitt að gera sér mynd af því. „Þess vegna erum við að halda þetta málþing með fræðimönnum í félagsfræði, hagfræði og sagnfræði ásamt því að heyra sjónarmið heimamanna. Hvað Flateyri varðar er róðurinn erfiður þegar það er búið að taka alla innviði í burtu og ekkert nema skólinn eftir sem þó er verið að krafsa í í nafni hagræðingar.“
Jóhanna tekur fram að allir eru velkomnir á málþingið til að hlýða á erindin endurgjaldslaust en sveitarfélögum, stærri stofnunum, fyrirtækjum og félagasamtökum býðst að styrkja málþingið með 25 þúsund króna þátttökugjaldi.
Fyrirlesarar verða Dr. Þóroddur Bjarnason, félagsfræðingur, prófessor í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, Dr.Guðmundur Hálfdánarson, sagnfræðingur, Jóns Sigurðssonar prófessor í sagnfræði við Háskóla Íslands, Dr. Kristinn Hermannsson, hagfræðingur, lektor við Glasgow-háskóla, Skotlandi. Sæbjörg Freyja Gísladóttir, þjóðfræðingur, Flateyri, Kristján Torfi Einarsson, útgerðarmaður og sjómaður, Flateyri og Jóhanna G. Kristjánsdóttir menntunarfræðingur Flateyri.