Karl Sigurðsson á Ísafirði varð 104 ára á laugardaginn 14. maí, og er elstur núlifandi karla. Næstir koma Sigfús B. Sigurðsson í Reykjavík, 103 ára, og Karl Jónasson í Reykjavík, 102 ára. Enginn íbúi á Vestfjörðum er eldri en Karl og aðeins Torfhildur Torfadóttir á Ísafirði og Helga Guðmundsdóttir í Bolungarvík hafa orðið eldri.
90 ára fermingarafmæli
Karl var skipstjóri í Hnífsdal, lengst á Mími. Var á sjó fram undir fimmtugt. Síðan var hann vélstjóri í hraðfrystihúsinu í Hnífsdal til 78 ára aldurs. Hann átti þrettán systkini. Kristjana Hjartardóttir, eiginkona Karls, varð 95 ára. Þau voru í hjónabandi í 71 ár og voru bæði fermd 15. maí 1932.
Hundrað ára var Karl kjörinn heiðursfélagi í Félagi eldri borgara á Ísafirði. Faðir Karls varð 99 ára, Sigurður bróðir hans 102 ára og Salómon Þorlákur bróðir hans er orðinn 92 ára.
„Höfðinginn hann faðir minn fagnar 104 árum í dag, hann er viss um að það verði tvö ár í viðbót hjá honum,“ segir Sigríður Ingibjörg dóttir hans á Facebook og birtir meðfylgjandi mynd af honum. „Það fer vel um hann á Eyri og hann er alsæll með veruna þar. Hann segist ekkert gera annað en að sofa og borða, algjört letilíf á honum. Nú þurfi að fara að hitna í veðri svo hann geti farið út i göngutúr. Annars nýtur hann þess að sitja inni og horfa á umferðina og út á Pollinn.“
Þetta kemur fram á Facebook-síðunni Langlífi.