Ók undir áhrifum fíkniefna

Í síðustu viku var einn ökumaður var kærður fyrir að aka undir áhrifum fíkniefna í umdæmi lögreglunnar á Vestfjörðum. Sá var stöðvaður í akstri á fjallveginum Hálfdán í Vesturbyggð að kveldi 27. apríl. Tólf ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í vikunni. Flestir þeirra voru í akstri í Strandasýslu og Ísafjarðardjúpi.

Aðfaranótt 30. apríl var svokallaðri neyðarsól skotið á loft yfir Holtahverfi í Skutulsfirði. Lögreglan hafði upp á þeim sem skaut þessu verkfæri á loft. Engin hætta var á ferðum og tilgangurinn ekki annar en sá að prófa. Um er að ræða neyðartæki sem eingöngu er ætlað að nota í neyð og misnotkun getur gert það að verkum að ekki verði brugðist við þegar neyð skapast.

Eitt slys var tilkynnt til lögreglunnar. Það var utan vegar um miðjan dag þann 1. maí er 12 ára gamall drengur féll af litlu fjórhjóli og meiddist á öxl. Hann var fluttur til læknisskoðunar á Hólmavík. Lögreglan er með atvikið til rannsóknar. Um virðist vera að ræða vélknúið fjórhjól af minnstu stærð.

Lögreglan vill koma á framfæri 1. maí varð árleg breyting á þeim tíma sem börn mega vera úti, skv. leyfi forráðamanna. Í þeim segir að frá 1. maí til 1. september megi 12 ára börn og yngri vera úti til kl.22:00 og 13 – 16 ára börn vera úti til kl.24:00. Miðað er við afmælisárið.

DEILA