Framsókn til framtíðar

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm.

Vorið er komið, alla vega á dagatalinu og kjördagur framundan. Við horfum vongóð fram á veginn en spyrjum okkur hvert skuli stefna og hvaða áherslur og væntingar við berum til nýrrar bæjarstjórnar í okkar góða sveitarfélagi.

Listi Framsóknar í Ísafjarðarbæ hefur á að skipa öflugu fólki með breiðan grunn þekkingar og reynslu, jafnt konum sem körlum og endurspeglar okkar fjölkjarnasveitarfélag ágætlega.

Kosningaáherslur Framsóknar sýna vel viljann til að horfa til framtíðar með hag allra byggðalaga að leiðarljósi. Það er mikilvægt, nú þegar við erum að horfa til nýrra og spennandi tíma í atvinnubyggingu, bæði í fiskeldi og ferðaþjónustu. Þær atvinnugreinar byggja á að við nýtum, á skynsaman hátt, þær auðlindir sem sveitarfélagið býr yfir, náttúruna og mannauðinn.

Heimastjórnir

Til þess að virkja þann mannauð sem býr í sveitarfélaginu er mikilvægt að virkja íbúa allra kjarna sveitarfélagsins sem best. Breytt áhersla í atvinnumálum kallar á breytta stjórnsýslu. Heimastjórnir eru mikilvægar til að virkja fólk til þátttöku þegar kemur að ákvörðunartöku í nærsamfélaginu eins og í skipulagsmálum, menningarmálum og öðrum þeim málefnum sem eru hreyfiafl hvers samfélags.

Ísafjarðarbær framtíðarinnar

Í lok næsta kjörtímabils verður sameinað sveitarfélag 30 ára. Margt hefur breyst á þeim tíma, bæði í innri og ytri aðstæðum. Því er eðlilegt að ný bæjarstjórn horfi til þess að móta nýja stefnu sem tekur mið af nýju aðalskipulagi og atvinnuháttum, ásamt því að breyttar áherslur í grunnþjónustu kalla á breytt viðhorf. Í því sambandi vil ég nefna að innleiða þarf ný farsældarlög vegna samþættingu er varðar snemmtæka íhlutun í þjónustu barna. Þessa hugmyndafræði þarf líka að innleiða hvað varðar þjónustu við aðra hópa eins og í þjónustu við eldri hópa samfélagsins.

Samvinna að leiðarljósi

Til að vinna að farsæld til framtíðar þarf að hafa samvinnu og kjark að leiðarljósi byggða á reynslu og þekkingu. Oddviti Framsóknar, Kristján Þór, hefur staðið sig með vel á síðasta kjörtímabili, kemur sterkur inn í oddvitasætið með góða reynslu og stefnir að því að taka með sér öflugt fólk sem hefur heilbrigða sýn á bæjarmálin. 

Framsókn í Ísafjarðarbæ vinnur með samvinnu í bæjarstjórnarmálum og vill leita leiða til að leysa vandamálin sem við  okkur blasa þannig að sem flestir íbúar sveitarfélagsins geti blómstrað í nærandi og manneskjulegu umhverfi. Er því ekki bara BEST að kjósa framsókn á laugardaginn?

Halla Signý Kristjánsdóttir þingmaður Framsóknar

DEILA