Sviðsstjóri skóla- og tómstundasviðs, leggur til þegar hefjist að vinna við að skoða hvernig best verði staðið að því að fjölga leikskólaplássum á Ísafirði hefjist sem fyrst.
Í minnisblaði sem lagt var fyrir bæjarráð á mánudaginn segir:
„Miðað við fjölda barna í hverjum árgangi er ljóst að Ísafjarðarbær mun á næstu árum ekki ná að viðhalda stefnu sinni um að bjóða öllum 12 mánaða börnum pláss á leikskóla. Jafnframt munu koma tímabil þar sem ekki tekst að bjóða öllum 18 mánaða börnum leikskólapláss, en yfirlýst markmið Ísafjarðarbæjar er að tryggja öllum 18 mánaða gömlum börnum leikskólapláss.“
Fram kemur einnig í minnisblaðinu að árið 2020 hafi lokið framkvæmdum á viðbyggingu við leikskólann Eyrarskjól og fjölgaði leikskólaplássum um u.þ.b. 25. Í framhaldinu setti Ísafjarðarbær sér þá stefnu um að bjóða öllum 12 mánaða börnum leikskólapláss og hefur það gengið í flestum tilfellum hingað til. Þegar búið verður að taka inn börn á leikskólana í maí 2022 þá verða öll leikskólapláss fullnýtt og ekki hægt að bjóða pláss að nýju fyrr en eftir sumarleyfi.
Lagt er til að hafin verði vinna við að skoða hvaða möguleikar eru fýsilegastir fyrir Ísafjarðarbæ við að fjölga leikskólaplássum. Hvort stækka eigi núverandi leikskóla eða huga að byggingu nýs leikskóla.
Minnisblaðið var lagt fram til kynningar og ekki bókuð viðbrögð bæjarráðs að svo stöddu.