Drög að ársreikningi Súðavíkurhrepps fyrir 2021 liggja fyrir.
Held að við getum vel við unað með afkomu ársins 2021 segir Bragi Þór Thoroddsen, sveitarstjóri.
Ársreikningur verður til fyrri umræðu í sveitarstjórn föstudaginn 6. maí 2022.
Jákvæð rekstrarafkoma A hluta er um 24 mkr. og jákvæð afkoma B hluta er um 14 mkr. Þessar tölur endurspegla rekstrarár í covid og léttari vetur en gert var ráð fyrir eftir erfiðan vetur 2019/2020.
Rekstrartekjur sveitarfélagsins á árinu námu 337 milljónum króna samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi fyrir A og B hluta en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 345 milljónum króna. Rekstrartekjur A hluta námu 302,8 milljónum króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir rekstrartekjum að fjárhæð 317 milljónum króna. Álagningarhlutfall útsvars var 14,48% en lögbundið hámark þess er 14,52%. Álagningarhlutfall fasteignaskatts nam 0,37% vegna íbúðarhúsnæðis og 1,57% vegna atvinnuhúsnæðis en lögbundið hámark þess er 0,625% og 1,65%.
30 m.kr. betri afkoma af rekstri -engar skuldir
Rekstrarniðurstaða sveitarfélagsins samkvæmt samanteknum rekstrarreikningi A g B hluta var jákvæð um 38,1 milljón króna en samkvæmt fjárhagsáætlun var gert ráð fyrir neikvæðri afkomu að fjárhæð 8,4 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða A hluta var jákvæð um 24 milljónir króna en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir neikvæðri afkomu að fjárhæð 8,5 milljónir króna. Eigið fé sveitarfélagsins í árslok nam 654 milljónum króna samkvæmt efnahagsreikningi, en eigið fé A hluta 655,6 milljónum króna.
Í árslok 2021 er skuldahlutfall skv. reglum um fjárhagsleg viðmið sveitarfélaga 0 % í samanteknum ársreikningi.