Vindur ekki hægari frá árinu 2002

Veðurstofa Íslands hefur birt yfirlist yfir veðurfar á landinu í marsmánuði. Tíð var lengst af hagstæð í mánuðinum og samgöngur greiðar. Hiti var nærri meðallagi, en úrkoma heldur minni en venja er í flestum landshlutum. Meðalhiti í Reykjavík mældist 1,8 stig og er það 1,3 stigum ofan meðallags áranna 1961 til 1990, en 0,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára. Meðalhiti í Bolungarvík mældist 1 stig sem er 2,2 stigum hærra en meðallagið 1961-1990, en 0,7 gráðum ofan meðallags síðustu tíu ára.

Vindhraði á landsvísu var um 1 m/s minni en að meðaltali og hefur ekki verið svona hægur í marsmánuði síðan 2002. Hvassast var dagana 23. til 25. en þá blés nokkuð hraustlega af suðri og síðar vestri. Austlægar áttir voru þó ríkjandi í mánuðinum eins og algengast er.

Mest frost í mánuðinum mældist -23,3 stig í Svartárkoti þann 21. Mesta frost á mannaðri stöð mældist á Grímsstöðum á Fjöllum þann 4., -18,6 stig.  Hæsti hiti mánaðarins mældist 17,5 stig á Seyðisfirði þann 26. Hæsti hiti á mannaðri stöð mældist 13,2 stig á Skjaldþingsstöðum þann 25.mars.

Úrkoma var minni en í meðalárferði um allt vestan- og norðanvert landið, en í ríflegu meðallagi á Austfjörðum og á Suðausturlandi. Aðeins 1 alhvítur dagur var á Akureyri í marsmánuði, 18 dögum færri en að meðaltali. Þetta er óvenjulegt og hafa alhvítir dagar ekki orðið jafnfáir þar í mars síðan 2003. Í mars 1963 og 1964 var alautt á Akureyri – það hefur ekki gerst síðan.

Fyrstu þrír mánuðir ársins hafa verið hlýir á landinu. Febrúar var sérlega hlýr. Í Reykjavík hafa þessir þrír mánuðir saman aðeins átta sinnum verið hlýrri en nú og sjö sinnum á Akureyri. Nýliðinn vetur var óvenjuhlýr, desember og febrúar voru sérlega hlýir, en janúar og mars nær meðallaginu. Í Reykjavík er aðeins vitað um þrjá hlýrri vetur frá upphafi samfelldra mælinga 1870.

annska@bb.is

DEILA