Framtíðin í skíðagöngunni björt

Albert og Sigurður Arnar að lokinni 50 km Fossavatnsgöngu.

Framtíðin í skíðagöngunni á Ísafirði er björt að sögn Daníels Jakobssonar, göngustjóra Fossavatnsgöngunnar. „Það sem stendur upp úr göngunni í ár er að drengir urðu að mönnum og stúlkur að konum. Árangur krakkanna okkar var alveg stórkostlegur,“ segir Daníel.

Sigurður Arnar Hannesson kom fyrstur heimamanna í mark í 50 km göngunni og hafnaði í 8. sæti. Albert Jónsson varð í 11. sæti og Dagur Benediktsson í 12. sæti. „Menn eru yfirleitt komnir yfir tvítugt þegar menn ganga 50 km á þessum hraða og þessi strákar eru allir undir því,“ segir Daníel.

Sólveig María Aspelund var sjötta í 50 km göngu kvenna, önnur íslensku keppendanna.

Pétur Tryggi Pétursson varð annar í 25 km göngunni á eftir Steven Gromatka gönguskíðaþjálfara Skíðafélags Ísfirðinga. Í 25 km göngu kvenna var Kolfinna Íris Rúnarsdóttir í öðru sæti.

Jakob, sonur Daníels göngustjóra, gekk heila 50 km, en hann er yngsti keppandi sem hefur gengið fulla Fossavatnsgöngu. Jakob er á 16. ári og er að klára 10. bekk í vor.

„Ég reyndi sjálfur við 50 km fyrst þegar ég var 19 ára og náði ekki að klára. Ég náði fyrst að klára 50 km á Ólympíleikunum 1994 þegar ég var orðinn 21 árs,“ segir Daníel.

„Með alla þessa krakka þá er ég ekki í nokkrum vafa um að við sjáum Ísfirðing fljótlega á Ólympíuleikum, jafnvel bara strax á næstu leikum.“

 Sigurvegararnir komu ekki á óvart

Petter Northug frá Noregi sigraði í 50 km göngu karla, nokkuð sem kom fáum á óvart enda er Northug einn sterkasti göngumaður veraldar. Hann gekk gönguna á tveimur tímum og 19 mínútum og setti brautarmet. Landi hans, Runar Skaug Mathisen, kom í mark fjórum sekúndum á eftir Northug og Snorri Einarsson var þriðji og kom í mark tveimur á hálfri mínútu á eftir Northug.

Sigurvegarar í 50 km göngu karla.

 

Britta Johanssen Norgren frá Svíþjóð sigraði 50 km göngu kvenna og kom sá sigur ekki á óvart frekar en sigur Northug í karlagöngunni. Caitlin Gregg frá Bandaríkjunum kom önnur í mark, ellefu mínútum á eftir Norgren. Í þriðja sæti var Brandy Stewart frá Bandaríkjunum, þrettán mínútum á eftir sigurvegaranum.

Sigurvegar í 50 km göngu kvenna.

Markmiðið ekki að stækka

Aðspurður um framtíðarplön Fossavatnsgöngunar og hvort hún eigi eftir að stækka, segir Daníel það vera eitthvað sem stjórn göngunnar og Skíðafélag Ísfirðinga verði að ræða. „Mín persónulega skoðun er að til lengri tíma litið sé betra að einbeita okkur að því að gera það sem við erum að gera í dag mjög vel og slípa af helstu vankanta. Við eigum ekki endilega að stefna að því að stækka gönguna og fjölga þátttakendum.“

Steven Gromatka og Pétur Tryggvi Pétursson voru fyrstir í 25 km göngunni.

Gangan komin rækilega á kortið

Koma Petter Northug í gönguna vakti mikla athygli bæði hér heima og í skíðagönguheiminum á veraldarvísu. Daníel er ekki í nokkrum vafa um að þátttaka Northug eigi eftir að skila göngunni miklu. „Petter Northug kemur okkur rækilega á kortið. Það verður uppselt fljótt á næsta ári. Við sjáum þetta bara á traffíkinni á vefsíðuna okkar og Facebook. Það er búið að skoða einstaka myndir allt að 15 þúsund sinnum, það er alveg nýtt fyrir okkur.“

Kong Petter kemur göngunni rækilega á kortið.

Samstaða bæjarbúa ómetanleg

Daníel vill koma á framfæri miklu þakklæti til allra sjálfboðaliðanna sem starfa við gönguna. „Það er alveg ótrúlegt hvernig bæjarbúar styðja við gönguna og það hvernig bæjarbúar standa saman er ómetanlegt. Það eru húsmæður um allan bæ að baka fyrir 1.200 manna kökuhlaðborð fyrir keppendur. Einstaklingar og fyrirtæki í bænum taka okkur einstaklega vel þegar okkur vantar aðstoð við uppsetningu og framkvæmd göngunnar,“ segir göngustjórinn að lokum.

Hér má sjá öll úrslit í Fossavatnsgöngunni 2017.

DEILA