Nýverið var úthlutað styrkjum úr Umhverfissjóði sjókvíaeldis fyrir árið 2017 og hlaut Náttúrustofa Vestfjarða tvo styrki úr sjóðnum. Er þetta í þriðja sinn sem styrkir eru veittir úr sjóðnum og voru veittir tíu styrkir að heildarupphæð 86.615 milljónum króna. Styrkirnir sem NAVE hlaut voru annarsvegar vegna vöktunar á lús á villtum laxfiskum á Vestfjörðum að upphæð 4.940 m.kr. og hinsvegar bætt vöktun fiskeldis með notkun líffræðistuðla að upphæð 1.8 m.kr. Hæstu styrkina hlaut Hafrannsóknarstofnun fyrir mat á burðarþoli fjarða og sjókvíaeldissvæða sem hlaut 25 m.kr., vöktun á umhverfisáhrifum sjókvíaeldis (22 m.kr.) og vegna rannsókna á áhættu erfðablöndunar á villta stofna (13.875 m.kr.). Þá hlaut stofnunin einnig í samstarfi við Matís styrk vegna rannsókna á erfðafræðilegum áhrifum laxeldis á villta laxastofna að upphæð 6 m.kr.
Umhverfissjóður sjókvíeldis er fjármagnaður af handhöfum fiskeldisrétthafa. Markmið sjóðsins er að fjármagna verkefni, sem lúta að því að aðlaga fiskeldi hér á landi sem mest að þeim umhverfisskilyrðum sem fyrir hendi eru og lágmarka þannig umhverfisáhrif af völdum sjókvíaeldis. Sjóðurinn greiðir kostnað við rannsóknir vegna burðarþolsmats, vöktunar og annarra verkefna sem stjórn sjóðsins ákveður. Jafnframt er heimilt að veita veiðiréttarhöfum styrki til að mæta kostnaði eða tekjumissi sem ekki er hægt að rekja til ákveðinnar eldisstöðvar.