Ársreikningur Bolungavíkurkaupstaðar fyrir 2021 hefur verið lagður fram. Þar kemur fram að nettóskuldir kaupstaðarins milli ára lækkuðu um 225 m.kr að raungildi. Skuldahlutfallið lækkaði úr 127% í 110% af tekjum.
Skuldahlutfallið var 194% í lok árs 2008 og 140% í árslok 2012 og er nú komið í 110%.
Rekstrarafkoman í fyrra var jákvæð um 82 m.kr. sem er mikill viðsnúningur frá árinu 2020 þgar afkoman var neikvæð um 91 m.kr. Veltufé frá rekstri hækkaði úr 30 m.kr. upp í 110 m.kr. í fyrra og gert er ráð fyrir að veltuféð hækki í 126m.kr. á þessu ári.
Nettóskuldir pr íbúa lækkuðu milli ára. Þær voru 2,187 m.kr. í lok árs 2020 en voru komnar í 2,063 m.kr. um síðustu áramót.
Hluti af afkomubatanum skýrist að því að skatttekjur jukust um 9,5% milli ára, fóru úr 671 m.kr. í 735 m.kr. Helsti útgjaldaliðurinn laun og lífeyriskostnaður jókast aðeins um 4,3% og kostnaður pr ársverk jókst um 2,3%. Annar rekstrarkostnaður lækkaði um 12,3%, fór úr 409 m.kr. í 359 m.kr.
Áætlun fyrir þetta ár gerir ráð fyrir að skuldahlutfallið lækki í 100% og að nettóskuldir pr íbúa lækki í 1,973 m.kr.