Myndlistarsýning : nr4 Umhverfing

Á komandi sumri  opnar  fjölmennasta og víðfeðmasta myndlistarsýning sem haldin hefur verið á Íslandi. Sýningin ber heitið Nr4 Umhverfing og er hún sú fjórða í röðinni sem Akademía skynjunarinnar stendur fyrir, en áður hefur hún staðið fyrir sýningum á Sauðárkróki (2017), Fljótsdalshéraði (2018) og á Snæfellsnesi (2019). Auglýst var eftir þátttöku myndlistarmanna sem starfa í eða eiga rætur að rekja til þess landshluta sem er undir í hvert skipti. Ráðgert er að sýningin opni formlega 2. júlí 2022.

Nr4 Umhverfing leggur undir sig Dalabyggð, Vestfirði og Strandir að þessu sinni og þátttakendur verða 127 myndlistarmenn. Myndlistarmennirnir velja sér sýningarstaði innan þessara landfræðilegu marka og eru þeir ýmist í helstu þéttbýliskjörnunum eða víðsvegar úti í náttúrunni. Verkin verða skráð með GPS punktum og merkt með hefðbundnum merkingum þar sem því verður við komið. Leiðarkort um sýninguna og bók um listaverkin og höfunda þeirra verða gefin út og mun hvort tveggja verða á boðstólum á helstu viðkomustöðum ferðalanga á Vestfjarðarhringnum.

Margir af þekktustu myndlistarmönnum þjóðarinnar munu taka þátt í Nr4 Umhverfing og má ætla, miðað við reynsluna af fyrri sýningum, að ferða- og myndlistaráhugamenn fjölmenni á sýninguna og njóti listar í Dölum, á Vestfjörðum og á Ströndum.

Forsvarsmenn Akademíu skynjunarinnar og skipuleggjendur sýningarinnar eru:

Anna Eyjólfs, myndlistarmaður, s.8917148

Ragnhildur Stefánsdóttir, myndhöggvari, s. 8978246

Þórdís Alda Sigurðardóttir, myndlistarmaður, s. 8202688www.academyofthesenses.is

DEILA