Patreksfjörður : yngsti meðhjálpari landsins

Tryggvi Sveinn Eyjólfsson er yngsti meðhjálpari landsins. Hann býr á Patreksfirði og þjónaði á föstudaginn sem meðhjálpari í fyrsta sinn við guðsþjónustu í Saurbæjarkirkju á Rauðasandi í Patreksfjarðarprestakalli hjá sr. Kristjáni Arasyni, sóknarpresti. Tryggvi Sveinn er fjórtán ára gamall, verður fimmtán í júlí, og faðir hans og afi voru meðhjálparar á Rauðasandi. Sem sagt þriðji ættliður og sá yngsti er tekur við keflinu. Þá var móðurafi hans prestur í Stafholti í Borgarfirði, sr. Brynjólfur Gíslason. Segja má að kirkjublóðið renni í sveininum unga.

Frá þessu er sagt á vef þjóðkirkjunnar kirkjan.is.

Kirkjan.is ræddi við Tryggva Svein áður en hann þjónaði í fyrsta skipti sem meðhjálpari og spurði náttúrlega fyrst hvernig honum litist á þetta.

„Bara vel,“ svarar hann að bragði, „þetta verður bara skemmtilegt.“

Er búið að setja þig inn í starfið?

„Það var æfing í dag, presturinn fór yfir þetta helsta sem ég á að gera,“ segir Tryggvi Sveinn, „eins og að kveikja á kertum og aðstoða hann í sambandi við prestsskrúðann.“

Ekki er annað hægt að segja en að hin aldna kirkja frá 1856 hafi fagnað hinum unga meðhjálpara í gær en milli þeirra eru 151 ár. Myndirnar með fréttinni sýna Tryggva Svein að störfum og er ekki annað að sjá en að hann standi sig með mikilli prýði. 

Eftir guðsþjónustuna buðu húsráðendur í Saurbæ á Rauðasandi, þau Kjartan Gunnarsson og Sigríður Á. Snævarr, upp á kirkjukaffi eins og þau hafa ætíð gert.

Mydir: Margrét Brynjólfsdóttir.

Meðhjálparinn og sálmataflan.
Saurbæjarkirkja.

DEILA