Fersk grásleppa á diskinn

Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátasjómanna kann ýmislegt fyrir sér og á dögunum tók hann sér fyrir hendur að koma grásleppu á framfæri við landann sem Arthúr segir að sé herramannsmatur.

Gefum honum orðið:

„Ég veigra mér við því að birta myndir af því sem er á disknum mínum yfirleitt, en nú geri ég undantekningu. Ástæðan er sú að ég hef til margra ára átt erfitt með að skilja þá staðreynd að fersk grásleppa er ekki á matseðli Íslendinga. Staðreyndin er sú að hér er um frábæran matfisk að ræða. Karlinn hennar, rauðmaginn er einn af vorboðum Íslands, næst á eftir lóunni. Við þekkjum söguna: ekkert fyrir löngu var karfa mokað í gúanó, humarinn reyttur úr botntrollum og kastað með fyrirlitningu fyrir borð, skötuselur talinn óætur vegna útlitsins og svona mætti lengi telja. Blessuð grásleppan hefur sannarlega ekki útlitið með sér og nafnið ekki heldur. En trúið mér, grásleppa, fersk, steikt á pönnu, grilluð, soðin, bökuð – er herramannsmatur. Við þetta vil ég bæta að ég sauð mér grásleppulifur í fyrradag og bauð sjálfum mér með smjörsteiktum kartöflum. Ef ég hefði haft bundið fyrir augun (eins og gert er í „blindum vísindalegum bragðprófunum“) hefði ég umsvifalaust sagt að ég væri að smakka þorsklifur. Munurinn er sá helstur að það var engan hringorm að finna í grásleppulifrinni. Til að kóróna allt saman sauð ég svolítið af hvelju og smakkaði. Ég hef lagt mér margt verra til munns. Áferðin var svotil nákvæmlega sú sama og á mýksta hluta hvalrengis sem við kaupum dýrum dómum í stórmörkuðunum. Ferska hvelju og soðna setti ég á tvo diska hér á patíóið bakatil. Kettirnir í Túngötunni kunnu svo sannarlega að meta þann gjörning. Það eina sem ég klikkaði á var að harðþurrka smávegis og bjóða stóra labradornum hér í þarnæsta húsi. Ég skora á ykkur að verða ykkur út um grásleppu og prufa!“

Grásleppa á matardiskinum.

DEILA