Minning: Lilja Sigurðardóttir frá Kirkjubóli í Mosdal, Arnarfirði

Lilja Sigurðardóttir frá Kirkjubóli í Mosdal, Arnarfirði.

f. 26. september 1923 –  d. 2. apríl 2022.

Jarðsungin frá Fossvogskirkju,

12. apríl kl. 13,00.

Þegar ekið er frá Hrafnseyri, fæðingarstað Jóns forseta, inn eftir norðurströnd Arnarfjarðar, fram hjá munna hinna nýju Dýrafjarðarganga við Rauðsstaði, og áleiðis inn í botn fjarðarins, og allt í einu hættir bifreiðin að hristast og nötra af því að nú er búið að leggja malbik á veginn, og áfram inn með ströndinni  og fyrir Borgarfjörð og Dynjandivog, þá verður þar fyrir allbreitt dalverpi, sem heitir Mosdalur. þar sem heitir Mosdalur.  Meðfram sjónum eru grasi gróin holt og sund, en þar fyrir ofan víðáttumikið gróðurlendi.  Þegar farið er upp frá bænum Ósi með innri hlíð Mosdals, er komið þar að, sem var bærinn á Kirkjubóli.  Upp af honum gengur afdalur, sem nefnist Kirkjubólsdalur.  Um hann liggur gamla reiðleiðin inn á Dynjandiheiði.  En framan við bæjarstæðið er allmikill skógur og heitir Kirkjubólsskógur.  Landið er mjög kjarngott og fé var hér vænt. En stórviðri gengu einatt af norðaustri og gátu valdið skaða. Fyrr á öldum var bænhús á Kirkjubóli.  Þar bjó um miðja 19. öld þjóðsagnapersónan Jóhannes Ólafsson, sem talinn var sjá niður með nefi sínu heldur en ekki. Foreldrar Lilju voru hjónin Jóna Kristjana Símonardóttir og Sigurður Guðmundsson, sem bjuggu búi á Kirkjubóli á fimmta áratug, eða frá 1915 til 1957.  Þeim varð 10 barna auðið.  Af þeim lifa nú bræðurnir Kristinn og Sigurjón Markús.

Síðustu ábúendur á Kirkjubóli voru móðursystir Lilju,  Guðbjörg Símonardóttir og maður hennar, Einar Einarsson, er síðar áttu heima í Ásgarði á Þingeyri.  Þau voru foreldrar drengsins góða, Bjarna Georgs Einarssonar heitins útgerðarstjóra á Þingeyri og systkina hans. Kirkjuból fór í eyði árið 1959 og sér nú aðeins móta fyrir tóttum, þar sem bærinn stóð. En vorfuglinn heiðló hljóp samsíða vegmóðum göngumanninum og flautaði veikt, þó vonglatt í hljóðfærið sitt góða.

               Vorið 1937 var Lilja fermd í Hrafnseyrarkirkju af góðklerkinum síra Böðvari Bjarnasyni, prófasti Vestur-Ísfirðinga, en hann sat sögustaðinn um fjögurra áratuga skeið, frá því prestvígðist snemma árs 1902.  Síra Böðvar var hagmæltur vel, gaf út kvæðasafnið Ljóðmæli  sem prentað var í Reykjavík 1955, – og einkar vænt þótti Lilju um þessa stöku síns kæra fermingarföður:

                                                           Þótt lífið hylji ljósin sín

                                                           og lífsins gáta’ ei verði skýrð.

                                                           Á bak við sortann sólin skín

                                                           í sinni miklu geisladýrð.

               Meðal barna síra Böðvars voru Bjarni, hljómsveitarstjóri í Reykjavík, Ágúst landmælingamaður og Guðrún, sem samdi lagið góða við sálm þjóðskáldsins frá Fagraskógi, Ég kveiki á kertum mínum.

               Lilja fluttist til Reykjavíkur 18 ára og réðist stúlka og barnfóstra hjá hjónunum Margréti Ólafsdóttur Hjartar, dóttur Ólafs Hjartar og Sigríðar Egilsdóttur á Þingeyri, og Eiríki Pétri Ólafssyni, skipstjóra.

               Seinna tóku við hjá Lilju afgreiðslustörf í höfuðstaðnum og saumaskapur hjá Vinnufatagerð Íslands.  En lengst vann hún hjá Iðnaðardeild Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins eða allt þar til hún hætti störfum fyrir aldurs sakir.

               Óhjákvæmilega leitaði hugur Lilju vestur, milli svefns og vöku, áratugina mörgu á mölinni.  Á þessu einkennilega augnabliki, þegar líkaminn missir þyngd sína og allt verður einhvern veginn mjúkt og gott.  Þá dvaldist hjarta hennar undir hinum bröttu fjöllum við hinn djúpa sjó, mjallhvíta fönnina á þorra, þegar sólin tekur aftur að skína eftir margra vikna fjarveru og blessuð, gullna röndin hennar gægist yfir fjallseggina og boðar langþráða vorkomu, og sjórinn, sem er eins og þúsund litlir speglar og tíður vængjasláttur æðarfuglsins á haffletinum.  Og kyrrðin, þessi dásamlega, óviðjafnanlega kyrrð, sem hjarta vort þráir í háværu orkestra dagsins, sem stundum verður að óþolandi ærustu í hinum mörgu veðrum ævi vorrar í þessum heimi.

               Um Bjarna Markússon, eiginmann sinn, matsvein frá Rofabæ í Meðallandi, sagði Lilja:  “Hann var líf mitt og ljós augna minna.”

               Guð blessi minningu þeirra mætu hjóna.

                                                                                                                      Gunnar Björnsson,

                                                                                                                      pastor emeritus.

DEILA