Fimm leikmenn meistaraflokka körfuknattleiksdeildar Vestra hafa verið valdir í æfingahópa U-20 landsliðs Íslands. Arnaldur Grímsson, Hera Magnea Kristjánsdóttir, Hilmir Hallgrímsson, Hugi Hallgrímsson og Sara Emily Newman. Það er ánægjulegt að sjá þessa efnilegu leikmenn uppskera á þennan hátt nú þegar tímabilinu er lokið en öll hafa þau tekið miklum framförum og fengið alvöru hlutverk á stóra sviðinu.
Þær Hera og Sara hafa verið lykilleikmenn í liði meistaraflokks kvenna á tímabilinu en báðar eru þær fæddar árið 2003. Þær hafa tekið stórstígum framförum í vetur, enda báðar fengið stór hlutverk í liðinu og vaxið inn í þau.
Hera Magnea er miðherji og skilaði á tímabilinu 5 stigum, 7,5 fráköstum,, 1,4 vörðu skoti, 1 stoðsendingu og 9,1 í framlag. Á flottu tímabili stóð leikur gegn Snæfelli uppúr þegar hún skilaði glæsilegri tvennu, með 17 stig og 11 fráköst.
Sara Emily er bakvörður, hún skilaði á tímabilinu að meðaltali 14 stigum, 4,3 fráköstum, 1,5 stoðsendingu og 6,8 í framlag. Besti leikur Söru á tímabilinu var gegn KR í haust þegar hún skoraði 30 stig, tók 5 fráköst og gaf 2 stoðsendingar.
Karlamegin hafa þeir Arnaldur, Hilmir og Hugi sýnt og sannað með liði Vestra í úrvalsdeild að þeir eru meðal bestu leikmanna á landinu í sínum árgangi en allir eru þeir fæddir árið 2002. Þeir hafa nýtt tækifærið í vetur vel og allir vaxið sem leikmenn.
Arnaldur Grímsson er báráttuglaður og fjölhæfur framherji. Hann hefur leikið að meðaltali 13 mínútur í leik í vetur. Í leik gegn Þór Akureyri í úrvalsdeildinni, nú undir lok tímabils, sýndi hann svo sannarlega hvers hann er megnugur með tröllatvennu, 22 stig og 15 fráköst.
Hilmir Hallgrímsson, bakvörður hefur leikið stórt hlutverk í úrvalsdeildarliði Vestra á tímabilinu með 9,5 stig, 5 fráköst, 1,3 stoðsendingar og 9,1 í framlag að meðaltali. Hann átt sannkallaðan stórleik nú undir lok tímabils gegn Breiðabliki þegar hann skoraði 26 stig með 83% þriggja stiga nýtingu.
Hugi Hallgrímsson hefur einnig leikið stórt hlutverk í liðinu, þótt meiðsl hafi sett strik í reikninginn á miðjum vetri. Hugi leikur stöðu framherja og hefur iðulega fengið það hlutverk að kljást við erlenda atvinnumenn í þeirri stöðu. Hugi fyllir alltaf vel upp í tölfræðiskýrsluna með góðu framlagi í vörn og sókn. Deila