![straumnes](https://www.bb.is/wp-content/uploads/2022/01/straumnes.png)
Í tilefni af ljósmyndasýningunni Straumnes sem er í Þjóðminjasafni Íslands um þessar mundir og sýnir leifar ratsjárstöðvar bandaríska hersins verður Albert Jónsson, fyrrverandi sendiherra og sérfræðingur í utanríkis- og varnarmálum með hádegisfyrirlestur föstudaginn 1. apríl næstkomandi.
Fyrirlesturinn fjallar um öryggismál Íslands í sögu og samtíma og ber heitið, Ratsjáin á Straumnesfjalli var lítill angi af sögu sem er löngu lokið – og þó ekki. Fyrirlesturinn fer fram í fyrirlestrarsal safnsins klukkan 12:00 og verður í beinu streymi á YouTube.
Í fimmtíu ár á 20. öldinni áttu Bandaríkin og Ísland náið varnarsamstarf vegna sameiginlegra þjóðaröryggishagsmuna á meginlandi Evrópu. Þeirri sameiginlegu sögu lauk með falli Sovétríkjanna fyrir rúmum þrjátíu árum.
Versnandi samskipti Rússlands og NATO eftir 2014 vegna átaka í Úkraínu hafa meðal annars stuðlað að því að Bandaríkjaher hefur á sama tíma aftur nýtt aðstöðu á Keflavíkurflugvelli. Það er þáttur í fælingar- og hernaðarstefnu NATO gegn Rússlandi í norðurhöfum. Hún fær aukið vægi í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu og sama á auðvitað við stuðning við stefnuna frá Íslandi þótt hann sé annarskonar og minni en var gegn Sovétríkjunum í kalda stríðinu.
Áfram verður ólíklegt að Bandaríkjaher hafi aftur varanlega viðveru á Íslandi líkt og hann gerði með föstu liði í landinu í áratugi á öldinni sem leið. Forsendur fyrir því hurfu með Sovétríkjunum.
Allt eru þetta lykilatriði sem sjaldan rata í íslenska umræðu um öryggis- og varnarmál, en eiga við bæði sögu og samtíma.