Þessa vikuna heimsækja Ísafjarðarbæ nemendur frá vinabænum Kaufering í Þýskalandi. Hópurinn kom til Ísafjarðar á fimmtudag í síðustu viku og hefur verið í nægu að snúast hjá þýsku ungmennunum sem hafa farið víða á meðan á dvölinni hefur staðið. Í september fóru nokkrir nemendur úr 10. bekk Grunnskólans á Ísafirði til Kaufering og dvöldu þar á einkaheimilum hjá jafnöldrum sínum í góðu yfirlæti og nú skal goldið líku líkt með dvöl á ísfirskum heimilum.
Dagskráin er fjölbreytt, til að mynda hittu nemendurnir ásamt kennurum sínum tveimur, Gísla Halldór Halldórsson bæjarstjóra Ísafjaðrarbæjar í gær og fór hann yfir helstu mál sveitarfélagsins með þeim, þá hafa þau farið í heimsókn í Grunnskóla Þingeyrar, kíkt á íslenska hesta, farið í skoðunarferð um Haukadal og fiskeldisstöðina, og notið þess að skreppa í sund á Þingeyri. Nemendurnir hafa tekið þátt í skólastarfinu í G.Í., kynnt sér Fablab og þá fóru þau á menningarkvöld 10. bekkjar í Edinborgarhúsinu í gærkvöldi.
Í dag heldur hópurinn til Suðureyrar í heimsókn í fyrirtækin Íslandssögu og Klofning og í framhaldinu fara þau í kajakferð. Svo verður kveðjumáltíð í Tjöruhúsinu og svo slegið upp balli í grunnskólanum. Í frétt á heimasíðu G.Í. segir að heimsóknir sem þessar séu afskaplega gefandi og lærdómsríkar, bæði fyrir gestgjafa og gesti og mikils virði að kynnast menningu annarra þjóða og styrkja vináttuböndin.