Nú er farið að líða að lokum á þessu keppnistímabili í blakinu.
Þriðja og síðasta “túnneringin” í neðri deildunum Íslandsmótsins verður haldið núna um næstu helgi.
Kvennalið Vestra í blaki keppir í 5 deild og er eftir fyrstu tvö mótin í efsta sæti deildarinnar ásamt tveimur öðrum liðum, með 21 stig. Í síðasta mótinu er deildinni skipt í efri hluta og neðri hluta, öll stig núlluð og spilað í A og B úrslitum. Konurnar spila síðasta mótið á Akureyri og verður fróðlegt að sjá hvernig þessi skemmtilega blanda ungra stúlkna og eldri blakara klárar lokasprettinn á keppnistímabilinu.
Í karlaflokki eru tvö lið skráð frá Vestra á Íslandsmótinu. A-liðið er í harðri baráttu í úrvalsdeildinni og einnig er skráð lið í 3ju deild, sem að mestu er skipað strákum á aldrinum 14-16 ára. B-liðið stóð sig vel á fyrsta mótinu sem haldið var í haust í Kópavogi, en í vetur þegar annað mótið var haldið lá nánast allt liðið í Covid og komst því ekki. Liðið keppir því í B-úrslitum í 3ju deild, en keppnisfyrirkomulagið er það sama og rakið var hér fyrir ofan hjá 5.deild kvenna. Loka mótið í 3ju deild karla er að þessu sinni haldið á Ísafirði helgina 26-27 mars.
Þess má geta að B-liðið keppti á yngriflokkamóti fyrr í vetur, þar sem það fór með sigur af hólmi og landaði Kjörísbikartitlinum í aldursflokki U16.
Og talandi um Kjörísbikar. Karla-A-lið Vestra í blaki er komið á úrslitahelgi kjörísbikarsins, 4 liða úrslit.
Annað árið í röð, en Þróttur Vogum kom í heimsókn helgina 12 og 13 mars sl, þar sem spilað var í Úrvalsdeildinni á laugardeginum og í Kjörísbikarnum á sunnudeginum. Skemmst er frá því að segja að báða leikina unnu heimamenn í Vestra, 3-1 og með því tryggðu Vestra-menn sig í 4-liða úrslitahelgi.
Undirbúningur er nú á fullu fyrir bikarúrslitahelgina, en gaman væri ef Vestra-fólk hvar sem það er á landinu myndi fjölmenna í Digranesið í Kópavoginum og hvetja liðið gegn sterku liði KA á föstudagskvöldinu 1 apríl kl 20:00. Þess má geta að úrslitaleikurinn fer fram sunnudaginn 3 apríl og hefst hann kl 13:00.
Þá er spennan í úrvalsdeildinni að magnast verulega þessa dagana. A.m.k. spennan um hvaða lið lendir í 4 sæti í deildinni og tryggir með því sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Á síðustu helgi kom Fylkismenn í heimsókn vestur og spiluðu tvo leiki í úrvalsdeildinni, tvo síðustu heimaleiki Vestra í deildinni þetta tímabilið. Það voru hörkuleikir báðir, þar sem lið gestanna hélt heimamönnum vel við efnið allann tímann. Úrslitin urðu engu að síður þau að Vestri vann báða leikina 3-0. Á sama tíma spilaði KA á móti Aftureldingu í Mosfellsbæ þar sem heimamenn lönduðu einnig sigri í báðum leikjumum. Vegna þessa komst Vestri upp fyrir KA og upp í 4. sætið í Úrvalsdeildinni og er þegar þessi frétt er skrifuð með 3ja stiga forskot á KA. En rétt er að taka fram að Vestri á eftir tvo leiki, báðir á móti Hamri, sem sitja efstir í deildinni, en KA á eftir 3 leiki, einn á móti Hamri og tvo á móti HK, sem sitja í öðru sæti deildarinnar. Ágætis líkur eru því á að Vestri spili í úrslitakeppninni, en ljóst er að lítið má út af bregða.
Það má því með sanni segja að spennan sé að magnast í blakinu og nóg fram undan.