Strandagangan fer fram á skíðasvæði Skíðafélags Strandamanna í Selárdal á Ströndum laugardaginn 12. mars 2022.
Strandagangan er almenningsganga fyrir fólk á öllum aldri, jafnt byrjendur sem lengra komna og er hluti af Íslandsgöngumótaröðinni.
Þetta er 28. árið í röð sem gangan er haldin en fyrsta Strandagangan var haldin árið 1995.
Í boði eru þrjár vegalengdir, 5 km, 10 km og 20 km, og þeir sem ljúka 20 km göngu fá stig í stigakeppni Íslandsgöngunnar. 20 km. fyrir 17 ára og eldri.
Í fyrra var 27. Strandagangan haldin 14 mars og voru skráðir keppendur 196 en 168 luku keppni við nokkuð erfiðar aðstæður í strekkingsvindi og skafrenningi á köflum en hægði þegar á leið.
Sigurvegarar í 5 km voru Hilda Steinunn Egilsdóttir og Daði Pétur Wendel. Í 10 km sigruðu Erla Sigurlaug Sigurðardóttir og Stefán Þór Birkisson. Mari Järsk og Sveinbjörn Orri Heimisson voru með besta tímann í 20 km vegalengdinni og varðveita farandbikara Strandagöngunnar.