Út er komin hin sívinsæla söngbók Vestfirskra Gleðipinna og er það hvorki meira né minna en sjötta sinn sem bókin kemur út frá því hún kom fyrst út árið 1988. Vestfirskir gleðipinnar er félagsskapur sem varð til í Menntaskólanum á Ísafirði upp úr miðjum níunda áratug síðustu aldar og hefur hópurinn haldið vel saman allar götur síðan, eins og söngbókaúgáfan ber vitni um. Söngbók Vestfirskra gleðipinna er ómissandi í hverjum sumarbústað, við varðeldinn, í veiðihúsinu, heima í stofu og í vinnustaðapartýinu.
Jakob Falur Garðarsson er einn gleðipinnanna og hann skrifar á Facebook að Vestfirskir Gleðipinnar hafi haft að leiðarljósi að gleðjast á góðri stundu, rækta vinskapinn og vera sólarmegin í lífinu. „Því miður er það þó ekki svo, að sólargeislar sumarsins færi okkur ávallt gleði og yl. Hjartkær vinur, Ásgeir Þór Jónsson, féll frá langt fyrir aldur fram, sumarið 2007. Með söknuð í hjarta, en minningar sem ylja, gefum við nú út endurbætta söngbók og tileinkum hana minningu Ásgeirs Þórs, sem hefði orðið fimmtugur 21. apríl 2017,“ skrifar Jakob.
Bókin verður gefin en frjáls framlög móttekin með þökkum. Verði ágóði af bókinni, mun hann renna til LIFA, Landssamtaka aðstandenda eftir sjálfsvíg.
Til að panta bókina er hægt að hafa samband við Jakob Fal á Facebook ellegar Indriða Óskarsson (indridio@gmail.com). Frjáls framlög leggist inn á reikning: 545-14-400461 // kt. 060867-3999