Þessi skemmtilega mynd er tekin af Birni Pálssyni ljósmyndara árið 1907. Hún er af Snorra Ágústssyni sem fæddur var 15. júní 1895 á Ísafirði, sonur Ágústs Benediktssonar verslunarmanns (1859 – 1901) og Önnu Teitsdóttur Benediktsson (1874 – 1963). Fleiri myndir voru teknar við þetta tækifæri og er Guðmundur Guðmundsson skólaskáld með Snorra á þeim myndum ásamt hvolpinum og kettlingnum.
Guðmundur flutti til Ísafjarðar árið 1906 og gerðist þá kostgangari hjá Önnu, sem varð ekkja árið 1901 og sá fjölskyldunni farborða með því að selja fæði auk þess sem hún veitti stúlkum tilsögn í hannyrðum, orgelspili og munnlegum námsgreinum.
Bjarni Jónsson, síðar vígslubiskup, kom sem ungur maður til Ísafjarðar þar sem hann var ráðinn skólastjóri við barna- og unglingaskóla Ísafjarðar. Þekkti hann fáa á Ísafirði þegar hann kom þangað en tveir gamlir vinir hans voru þó búsettir þar:
„Á Ísafirði hitti ég góða vini mína, Guðmund Guðmundsson skólaskáld og Jónas Guðlaugsson skáld. Voru þeir mér hjálplegir að útvega mér húsnæði og borðaði ég á sama stað og þeir, hjá frú Önnu Benediktsson, en Áslaug dóttir hennar er kona mín allt til þessa.“ (Vesturland 24. des. 1964, 9)
Árið 1905 fékk Anna Benediktsson borgarabréf til verslunar og opnaði verslun sem hún rak til ársins 1911 þegar hún flutti til Reykjavíkur. Þar hélt hún áfram að selja fæði, fyrst í Þingholtsstræti 18 og síðar Lækjargötu 12.
Snorri bjó hjá móður sinni til ársins 1909 en finnst ekki í manntali eftir það. Mun hann hafa flust til Vesturheims og segir Íslendingabók hann hafa verið sjómann í Bandaríkjunum. Ekki er ólíklegt að hann hafi fylgt móðursystkinum sínum en þrjú þeirra fluttu vestur um haf.