Í eftirlitsflugi þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar síðdegis í gær kom áhöfnin á TF-GNA auga á stóra borgarísjakann sem varðskipið Þór sigldi fram á um hádegisbil í gær.
Um leið og þyrlan lækkaði flugið niður yfir sjó við Bjarnarfjörð á Ströndum blasti þessi stóri og myndarlegi borgarísjaki við.
Áhöfnin hélt fluginu áfram til að kanna hafís á þessum slóðum og hélt norðar til að athuga með enn stærri borgarísjaka sem tilkynnt hafði verið um. Á leið sinni að þeim stóra flaug þyrlan fram hjá litlum ísjaka sem var um 10×15 metrar.
Þegar þyrlusveitin var komin nokkuð djúpt norður af Vestfjörðum blasti gríðarstór borgarísjaki við þyrlusveitinni, mun stærri en sá sem var í Húnaflóa. Um er að ræða ógnarstóran jaka og íshrafl og brot úr jakanum umhverfis hann. Áhöfn þyrlunnar framkvæmdi eina hífingu á jakanum.
Sigmanni Landhelgisgæslunnar var slakað niður og á meðan flaug þyrlan hring um jakann. Þegar sigmaðurinn var hífður aftur upp var vélinni tyllt niður á borgarísjakann eins og sjá má í meðfylgjandi myndum. Þyrlusveitin staðfesti einnig legu ísspangar með tilliti til gervitunglamynda sem borist hafa jarðvísindadeild Háskóla Íslands, Veðurstofu Íslands og Landhelgisgæslunni.
Landhelgisgæslan hvetur sjófarendur til að vera meðvitaða um legu hafíssins en í meðfylgjandi korti má sjá staðsetningu ísjakanna eins og þeir blöstu við þyrlu Landhelgisgæslunnar síðdegis í gær.