Ísafjarðarbær: innheimtuþjónustu sagt upp eftir 15 ár

Samningi Ísafjarðarbæjar við Mótus ehf/Lögheimtuna ehf á Ísafirði um innheimtuþjónustu fyrir sveitarfélagið var sagt upp 30.mars 2021. Minnisblað um málið, sem lagt var fyrir bæjarráð, hefur ekki verið birt. Skömmu seinna eða 31. maí 2021 samþykkti bæjarráð Ísafjarðarbæjar og svo bæjarstjórn þann 3. júní 2021 að semja við Inkasso ehf til þriggja ára með framlengingarákvæði um eitt ár sé honum ekki sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara.

Bæjarins besta hefur fengið minnisblaðið afhent en hlutar þess eru yfirstrikaðir og því ekki læsilegir. Skýringarnar sem gefnar eru þær að „Upplýsingar sem strikað hefur verið yfir varða fjárhags- og viðskiptahagsmuni sem okkur er ekki heimilt að birta.“

Minnisblaðið skrifa Bryndís Ósk Jónsdóttir, bæjarritari og sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og Edda María Hagalín, fjármálastjóri og er það stílað á bæjarráð.

Þar segir að síðustu misseri hafi æ oftar komið fram að tilefni sé til þess að endurskoða samning sveitarfélagsins við Mótus. Svo segir: „Stjórnendur og starfsmenn hafa oftar en ekki rekið sig á ………………………………………………………………………“

Vegna yfirstrikunarinnar sést ekki hvert tilefnið er. Því er haldið leyndu. Síðar segir að síðustu ár hafi önnur fyrirtæki sett sig í samband við bæinn og gert tilboð um innheimtuþjónustu. Stjórnendur bæjarins sjái möguleika til þess að lækka innheimtukostnað og bæta þjónustu. Því hafi samningnum við Mótus verið sagt upp 30.mars 2021 og að samningnum ljúki 12. nóvember 2021.

„Stjórnendur hafa því unnið að því síðustu vikur og mánuði að fá tilboð og upplýsingar frá öðrum fyrirtækjum um innheimtuþjónustu og jafnframt gefið Mótus ehf kost á að uppfæra samningsskilmála og og fjárhæðir sínar vegna innheimtuþjónustunnar.“

Niðurstaða þeirrar vinnu sé að óskað er heimildar bæjarstjórnar til þess að semja við innheimtufyrirtækin Inkasso ehf/Lögheimtuna ehf um frum- milli- og löginnheimtu.

Birtur er hlutfallslegur samanburður á tilboðum Inkasso og Mótus sem sýnir að þjónusta Inkasso sé mun ódýrari en hjá Mótus. Fjárhæðir eru ekki gefnar upp og þær yfirskyggðar.

Í lok minnisblaðins er aftur vikið að þeirri skoðun stjórnenda og starfsmanna innheimtumála að kominn sé tími á að skipta um þjónustufyrirtæki. En að því sögðu er strikað yfir nokkrar línur sem væntanlega skýra þess afstöðu og því ekki unnt að lesa hverjar skýringarnar eru.

Á bæjarstjórnarfundinum var samningurinn við Inkasso samþykktur með 8 atkvæðum en Arna Lára Jónsdóttir sat hjá. Hún vildu fá að vita hvernig staðið var að því að afla tilboða og hvort ekki hafi verið rætt við Inkasso um að vera með starfstöð á Ísafirði.

Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri svaraði síðari spurningunni á þann veg að starfstöðvar skiptu ekki máli þar sem málin væri leyst mikið til í gegnum síma.

Nú er Inkasso tekið við innheimtunni frá því í nóvember sl. og samkvæmt heimildum Bæjarins besta hafa mætt fyrir hönd Inkasso einstaklingar sem sumir hverjir eru sagðir tengjast Officio eða Innheimtustofnun sveitarfélaga á Ísafirði.

Bæjarins besta hefur sent Ísafjarðarbæ eftirfarandi spurningar og óskað svara við þeim:

  1. Var uppsögn samnings við Modus þann 30.3. 2021 gerð að fenginni ákvörðun bæjarráðs eða bæjarstjórnar?
  2. Hjá hvaða fyrirtækjum var leitað eftir tilboðum í innheimtuþjónustu og hver voru tilboðin sem fengust?
  3. Óskað er eftir afriti af samningi við Inkasso.
  4. Af hverju töldu stjórnendur og starfsmenn innheimtumála að þörf væri á því að skipta um þjónustufyrirtæki?
  5. Er Inkasso í samstarfi við Officio á Ísafirði ?
Niðurlag minnisblaðsins.

-k

DEILA