Tólfta Púkamótið verður haldið dagana 23. og 24. júní á Torfnesvelli á Ísafirði og lofa aðstandendur að það verði haldið í sól og sumaryl. Á mótinu munu fyrrverandi knattspyrnuhetjur rifja upp gamla takta og keppt verður á milli Dokku-, Króks-, Hlíðarvegs-, Eyrar-, Holtahverfis,- og Fjarðarpúka. Púkamótið verður sett stundvíslega kl. 17 á föstudeginum á Torfnesvelli. Að setningu lokinni verður ÍBÍ liðinu, sem fór upp í efstu deild árið 1981, veitt sérstök viðurkenning. Þá verður í fyrsta sinn vítaspyrnukeppni á milli 40 til 50 ára, 50 til 60 ára og 60 +, þar sem mönnum gefst gott tækifæri til þess að láta ljós sitt skína án þess að reyna um of á líkamshreysti sína. Um kvöldið verður útgáfuhóf í tilefni af útkomu bókar Sigurðar Péturssonar sagnfræðings um ísfirska knattspyrnu.
Leikir Púkamótsins hefjast síðan á Torfnesvelli laugardaginn 24.júní kl.13:30 þar sem knattspyrnukempur munu gleðja augu og eyru viðstaddra. Um kvöldið verður síðan formlegur kvöldverður og dans langt fram á nótt.
Á síðasta ári féll Púkamótið niður, en þá voru hugmyndir uppi um að færa það til Reykjavíkur, en nú mæta púkarnir tvíefldir til leiks og er skráning hafin inn á www.pukamot.is