Merkir íslendingar: Gils Guðmundsson

Gils Guðmundsson fæddist í Hjarðardal innri í Önundarfirði 31. desember 1914, sonur Guðmundar Gilssonar, útvegsb. í Hjarðardal, og k.h., Sigríðar Hagalínsdóttur.

Foreldrar Guðmundar: Gils Bjarnason á Mosvöllum og Guðmundína Jónsdóttir, systir Guðnýjar, ömmu Jónu, ömmu Ólafs Þ. Þórðarsonar og Kjartans Ólafssonar alþm. Foreldrar Sigríðar: Hagalín Þorkelsson og Sólveig Pálsdóttir.

Kona Gils var Guðný Jóhannesdóttir en dóttir þeirra er Erna Sigríður Gilsdóttir, kennari í Danmörku. Stjúpsonur Gils er Úlfur Árnason, doktor í Lundi.
 

Gils lauk kennaraprófi frá KÍ 1938, var sjómaður 1934-40, kennari við Íþróttaskólann í Haukadal og við unglingaskóla í Garði og Sandgerði, rithöfundur frá 1942, blaðamaður og ritstjóri 1943-56 og framkvæmdastjóri Menntamálaráðs og Bókaútgáfu Menningarsjóðs 1956-75.
 

Gils var alþingismaður Reykjavíkur fyrir Þjóðvarnarflokk Íslands 1953-56 og þingmaður Reykjaneskjördæmis fyrir Alþýðubandalagið 1963-79. Hann var formaður Þjóðvarnarfélags Reykjavíkur 1953-54 og varaformaður Þjóðvarnarflokksins 1960-62, formaður Rithöfundasambands Íslands 1957-58 og formaður félagsins Ísland – Færeyjar.
 

Gils sat í Rannsóknaráði ríkisins, var skipaður í endurskoðunarnefnd laga um friðun Þingvalla og náttúruvernd, var formaður fiskveiðilaganefndar frá 1971, sat í Norðurlandaráði 1971-74, í verðlaunanefnd Gjafar Jóns Sigurðssonar og í Þingvallanefnd. Hann sat á Allsherjarþingi SÞ 1970 og á hafréttarráðstefnu SÞ 1974-75.
 

Gils samdi fjölda sagnfræðilegra rita og skrifaði sögu ýmissa stéttarfélaga. Má þar helst nefna Skútuöldina, Togaraöldina og Vestfirska sagnaþætti. Þá ritstýrði hann tímaritum og bókum, s.s. bókunum Öldin sem leið 1800-1900 og Öldin okkar, frá 1900-1980.
 

Gils lést 29. apríl 2005.

Séð yfir Vöðin í Önundarfirði; að Holtsodda og Hjarðardal. Ljósm.: BIB



Siglandi á Önundarfirði.
F.v.: Jón Hallgrímsson frá Innri-Hjarðardal (1879 – 1964) og Gils Guðmundsson (1914 – 2005) frá Innri-Hjarðardal. Ljósm.: Sigurður Guðmundsson.




DEILA