Skíðafélag Ísfirðinga sendi að vanda stóran og öflugan hóp á Andrésar andar leikana sem fóru fram á Akureyri um helgina. Alls kepptu 66 krakkar undir merkjum Skíðafélags Ísfirðinga og skiptust þeir nokkuð jafnt í keppendur í göng og í svigi. „Þessir krakkar eru siguvegarar upp til hópa sem við Ísfirðingar megum vera stolt af,“ segir Hólmfríður Vala Svavarsdóttir, formaður Skíðafélags Ísfirðinga. Það er of langt mál að fara yfir einstaka sigra og sætaniðurraðanir í þeim fjölda aldursflokka og keppnisgreina sem keppt var í, enda er það ekki aðamálið á Andrésar andar leikunum.
Hólmfríður Vala segir að ísfirsku keppendurnir hafi staðið sig með miklum sóma og verið á palli bæði í svigi og í göngu. „Svo var ein ung stúlka frá okkur sem keppti á snjóbretti og komst á pall sem mjög góður árangur, sérstaklega í ljósi þess að við erum ekki með neinar æfingar á snjóbrettum.“
Að sögn Hólmfríðar Völu er stór hópur keppenda frá Ísafirði sem koma úr íþróttakóla HSV, en það eru iðkendur í 1-4 bekk. „Einhverjir kepptu bæði í göngu og svigi og svo voru tveir keppendur frá okkur sem kepptu í flokki fatlaðra.“
Andésar andar leikarnir eru sannkölluð fjölskylduhátíð og Hólmfríður Vala segir að einungis þrír keppendur mættu án foreldra. „Það voru 16 ára krakkar sem geta séð um sig sjálf. En Andrés er fjölskylduferð Skíðafélagsins og það skemmtu sér allir mjög vel, börn og foreldrar.“